Mögulegur tvífari Adele?

finding-happiness-in-recovery

Þrátt fyrir glansmyndir af lífi fólks sem birtast stöðugt á samfélagsmiðlum þá getur lífið verið allskonar. Bland í poka. Og fyrir einhvern eins og mig sem vill frekar hafa stjórn á því sem ratar í pokann minn þá getur það verið erfiður biti að kyngja. Að sumu stjórnum við einfaldlega ekki. Lífslærdómur sem ég hef ekki enn fellt mig við en fæ næg tækifæri til að æfa mig svo það hlýtur að koma, fyrr en seinna, er það ekki? 

En þó lífið geti stundum verið stjórnlaust og hlutirnir séu ekki nákvæmlega eins og við viljum hafa það, þá eru ákveðnir hlutir sem ég hef á mínu valdi. Ég hef til að mynda enga stjórn á öðru fólki, það bara gerir það sem því hentar óháð mér, meira að segja dæturnar sem ég hlýt að eiga að stjórna, allavegana fram að 18 ára, eru stundum alveg stjórnlausar. En hvað get ég þá gert? Það er eitthvað sem ég er búin að hugsa mikið um undanfarið. Allskonar ástæður fyrir því, en það byrjaði til dæmis með flutningunum hingað til LA. Það er mikið valdleysi fólgið í því að hætta að vinna, mega ekki vinna. Fyrir fullorðna manneskju að vera algjörlega upp á aðra manneskju komin, hafa ekki einu sinni sinn eigin bankareikning því maður fær ekki ameríska kennitölu. Flytja í burtu frá öllu sem maður þekkir og koma sér fyrir í algjörlega nýju umhverfi, það er stjórnlaust, ég er að segja ykkur það! En hvað gerir kona þá?

Jú, ég ákveð og stjórna því hvernig ég bregst við þegar lífið lætur öllum illum látum. Ég vakna á hverjum degi og ákveð hvernig ég ætli að takast á við stjórnleysið. Og ég ætla ekki að bugast eða gefa eftir. Ekki fyllast biturð eða vonleysi. Stundum bugast maður tímabundið, það er líka val, stundum þarf maður bara að liggja uppi í rúmi og vorkenna sér. Þá er gott að láta það eftir sér. En svo þarf maður að rífa sig upp á rassgatinu og hugsa það hvernig, mitt í öllu kaosinu maður getur fundið stundarfrið, jafnvel smá hamingjuskot. 

Úrvinda og úttauguð mætti ég inn í snyrtivöruhimnaríkið Sephora einn daginn. Sagði við afgreiðslukonuna: "Mér líður ömurlega, en hef ákveðið að ég vilji ekki líta ömurlega út líka þó mér líði þannig. Reddaðu því!" Og þessi elska sem hún er græjaði það. Ég eyddi formúgu, já. En hverrar krónu virði. Síðan þá tekur fólk stöðugt eftir húðinni minni og segir mér hversu vel ég líti út. Ég tók svo upp á því að fara að blása á mér hárið og fékk athugasemd um daginn um að ég liti alveg eins út og Adele, ekki amalegt það. Ég fer í jóga því það gleður mig og orkan sem ég fæ út úr því hleður batteríin og gleðistöðina í langan tíma á eftir. Ég drekk bara gott kaffi og borða bara góðan mat. Ég hitti allt það yndislega fólk sem ég á í kringum mig, fólk sem gleður mig og gefur mér eitthvað. Og svo brosi ég bara. Ég hlusta á skemmtilega tónlist, horfi á þætti sem mér finnast skemmtilegir og hugsa á hverjum degi hvað ég geti gert til að gera þennan dag eins góðan og hann mögulega getur orðið. Hljómar einfalt en oft er þetta bara miklu meira en að segja það. 

Í morgun vaknaði ég með kvef, drulluþreytt og með vöðvabólgu eftir að hafa deilt rúmi með kolkrabba (yngri dóttirin) sem tók upp á því að grenja meira en góðu hófi gegnir um miðja nótt. Ég var krumpuð og pirruð og lífið hefur verið flókið undanfarið. En mig langar ekki til að lífið sé bara flókið svo ég klæddi mig upp, meira en venjulega. Setti upp Adele hárið, skærbleikan varalit og fann mér svo splunkunýtt kaffihús til að sitja á í dag og skrifa BA ritgerðina mína. Umkringd hipsterum með latte sem myndi sóma sér vel í 101 RVK. Af því að ég er búin að ákveða að þessi dagur, þó hann verði kannski köflóttur, verði líka góður. Ég brosi til fólks sem verður á vegi mínum því oft brosir það til mín til baka og það gleður mig. Kennari sem kenndi mér verkefnastjórnun sagði að þetta væri lykillinn að því að vera farsæll, að finna eitthvað sem gefur manni hamingju á hverjum degi! Þannig getur maður, mitt í því sem kannski ætti ekki að vera góður tími, fundið tækifæri til að eiga notalega stund, augnabliks hamingju. 


Hot or not?

c4a213796519f6e8d9d42b5bcb40dd94

Ég var farin að hafa áhyggjur. Undanfarna mánuði hefur mér liðið eins og ég sé mögulega að eldast, dottin úr sambandi við það hvað unga fólkið er að gera og fíla þessa stundina. Ég er að verða 36 ára á þessu ári, hef aldrei látið tölur sem þessar fara í taugarnar má mér en einhver titringur hafði gert vart við sig innra með mér. En hvaðan kom þessi þankagangur eiginlega?

Jú. Það er afar einföld skýring á þessu og það er facebook hópurinn Beauty Tips sem einhver var svo vænn að bæta mér við í fyrir einhverju síðan. Eins og gefur að skilja snýst þetta mest um föt, snyrtivörur, neglur og hár, það liggur í hlutarins eðli. Ég klæði mig í föt, mála mig næstum daglega, er með neglur og mikið af hári svo ég ætti að eiga heima þarna inni er það ekki? Í hópnum eru konur, á öllum aldri. En þær sem hafa sig mest frammi eru á aldrinum 15-25 að því er virðist vera.

Að fylgjast með daglegum hugðarefnum þeirra lætur mér líða eins og ég sé orðin ævaforn. Þær tala að því er virðist stundum annað tungumál en ég. Þarna ber hæst þessa stundina eitthvað sem þær kalla Contouring og virðist krefjast einhverra meika eða hyljara í öllum mögulegum litum og gera konur flekkóttar. Afhverju viljum við vera flekkóttar? Ég bara skil þetta ekki? Hvað er að gerast? Svo er keppst við að lita á sér hárið í litum á litaspjaldinu sem hefðu ekki einu sinni átt erindi upp á vegg þegar ég var krakki en voru hinsvegar litir á LEE gallabuxunum sem allir voru í. Núna er þetta ekki lengur buxnalitur heldur hárlitur. Þær virðast svo helst hafa samskipti með einhverjum broskallategundum sem ég held að séu kallaðir emoticons og kvarta svo sáran undan typpamyndum sem þær virðast fá sendar í tonnatali frá mönnum á öllum aldri. Ég kann ekki ennþá að kalla fram hjarta með svona emoticon myndum og hef bara aldrei fengið senda typpamynd. Ekki eina einustu! Hvað er að gerast?

Hvað var ég að gera á þessum aldri? Ircið var nýkomið og ég fór á nokkur svoleiðis deit. Damon Albarn var heitur á Íslandi, jafnöldrur mínar eyddu miklum tíma í að hafa uppi á honum og svo eignuðumst við allar farsíma. Það var hægt að senda heit smáskilaboð sín á milli en engar myndir, þær þurftum við ennþá að framkalla eins og fávitar þannig að ferillinn var of flókinn fyrir flesta. Enginn sendi mér typpamynd í bréfformi né heldur í tölvupósti þegar hann byrjaði.  En ég var alveg jafn upptekin af sjálfri mér og þær virðast vera í dag.  Einu sinni var einhver að tala um stór nef nálægt mér. Ekki við mig eða um mig heldur um stór nef almennt. Þá uppgötvaði ég að ég hefði aldrei eytt tíma í að greina á mér nefið, hvaða stærð það væri í. Þetta kallaði á heilan dag á baðherberginu fyrir framan spegilinn að horfa á blessað nefið á mér frá öllum mögulegum sjónarhornum. Ég hef enn ekki komist að niðurstöðu með nefið á mér, hvort það sé stórt eða lítið, hvað finnst ykkur? Ófáar klukkustundirnar fyrir framan spegilinn fóru í að prófa förðunarvörur og sjá hvort ég kæmist upp með að vera með melluband um hálsinn, fannst það alltaf draga fram undirhökuna frekar en nokkuð annað. Ég held að þetta sé eðlilegur partur af þroska okkar. Við erum að uppgötva sjálfið, átta okkur á hvar við erum í þessu öllu saman, hvað okkur líkar við og hvað ekki. Svo eignaðist ég börn og hafði ekki lengur tíma til að velta mér uppúr sjálfri mér. Ég gat rétt svo tekið stöðuna á fötunum, hvort þau væru blettótt eða ekki og tryggja að ekki væri fuglahreiður þar sem hárið átti að vera. Maskari var plús og allt til viðbótar við það kallaðist dekur. Við hjónin grínuðumst stundum með það þegar hann tók sér tíma til að klippa á sér neglurnar og raka sig á morgnanna, þá horfði ég á hann með ásökunaraugum og talaði um spa meðferðina sem hann trítaði sig á. Þetta var þegar ég var í fullu starfi og með tvö lítil börn.

En nú er svo komið fyrir mér að ég er ekki í fullu starfi og hef því meiri tíma en er kannski hollt. Naflaskoðunin er komin aftur og ég get eytt tíma í næði á morgnanna meðan dæturnar eru í skólanum með sjálfri mér. Og þá sný ég mér að beauty tips til þess eins að komast að því að ég er dottin út úr orðaforðanum og veit ekkert hvað er hot og hvað er not í þessum heimi lengur. Það eina sem ég er viss um er að ég er eins og risaeðla þarna inni. Þetta gæti samt staðið til bóta þar sem ég er orðin meðlimur í Beautytips 30+...


Núvitund búhú!

mindful-or-mind-full

Þegar ég var um átta ára ákváðu foreldrar mínir að taka andlega stefnu í lífinu. Þau skráðu sig til leiks í hugleiðslu hjá einhverjum frumkvöðli í þeim efnum. Þeim fannst þetta stórmerkilegt svo áður en ég vissi af var búið að troða mér á námskeið hjá honum. Hann kenndi mér að hugleiða og gaf mér mína eigin hugleiðslumöntru, eitthvað sem átti að leiða vitundina í ró. Hljómar skemmtilegt en raunin varð önnur. Reyndu að rífast við einhvern sem svarar því alltaf með því að maður eigi að hugleiða og þá leysist þetta af sjálfum sér. Þetta varð staðlað svar mömmu og pabba við öllu, leiðin til að leysa hvaða verkefni sem var. Bróðir minn var óþolandi erfiður og stríðinn, notaðu möntruna á það, vinkonurnar áttu flottari dót en ég, notaðu möntruna á það og svona hélt þetta áfram. Ekki nema von að ég hafi algjörlega blokkað þessa möntru úr huga mínum og get ekki með nokkru móti kallað hana fram í dag. 

Það var því með hálfum hug sem ég skráði mig til leiks á núvitundarnámskeið hér í borg. En það er ógeðslega hipp og kúl að læra núvitund, allir starfsmenn Google gera það og hver vill ekki vera eins og starfsmaður Google? Og fyrir manneskju sem hrærist ýmist í fortíð eða framtíð hljómar skynsamlega að reyna að staldra aðeins meira við í núinu. Það er flókið að sitja á fortíðardraugum með þráhyggju um að hamingjan leynist í framtíðinni. 

Ég fór á 6 vikna námskeið. Við lærðum að borða út frá núvitund, labba út frá núvitund, liggja út frá henni og sitja út frá henni. 30 manns saman í hóp. Og það eina sem maður á raunverulega að gera er að einbeita sér að andardrættinum og þegar hugurinn leitar annað, viðurkenna það og snúa sér svo aftur að andardrættinum eða umhverfishljóði eða leiðsögn um hugleiðslu af upptöku. Einfalt ekki satt! En andskotinn hvað þetta var leiðinlegt. Kennarinn var búinn að stúdera efnið svo lengi að hann talaði á þessum hæga hraða sem þeir sem hafa upplifað andlega vakningu nota. Hæææægt og yfirvegað. Því hann er svo zen sko. Ég bara hef enga þolinmæði fyrir þessu, enda liggur mér svakalega á að öðlast þessa núvitund svo mér líði betur. Svo, þegar ég var ekki að hlusta á hann og við áttum að hugleiða, þá smá jók hann tímann sem við gerðum það þar til hann sagði stoltur að lokinni einni hugleiðslunni að við höfðum þá lokið við 45 mínútna hugleiðslu. Sem hefði verið alveg frábært. En ég var bara alls ekkert róleg. Þessar 45 mínútur festist ég í huganum við það að Walking Dead þættirnir hófust á aðalpersónu sem rankar við sér á spítala og allir eru orðnir að ógurlegum uppvakningum. Og ég varð sannfærð um að það væri að eiga sér stað í þessum hugleiddu orðum og ég sæti þarna á meðan með augun lokuð að hugsa um eitthvað skrambans "nú" sem aldrei kemur. Fyrst hafði ég áhyggjur af uppvakningunum en svo óttaðist ég meira um geðheilsu mína og þá stefnu sem hugur minn kaus í frelsinu.

Við fengum heimavinnu með okkur, hugleiða á hverjum degi. Ég gleymdi því alltaf, einu skiptin sem ég mundi það var þegar ég þurfti að flýja háværar dæturnar og gat því afsakað mig með hugleiðsluheimavinnu við eiginmanninn. Auðvitað engar líkur á því að nokkur maður geti hugleitt með ormana heima, það er ekki flóafriður hérna þegar þær eru heima. Kom þó að einhverju gagni, þó það hafi ekki skilað því sem átti að skila. 

Ég verð bara að læra þessa núvitund einhvern tímann seinna. Alltof mikið í gangi í hausnum á mér til að ég geti verið í núinu.


Sexí jóga!

IMG_9041

Ég hef ekkert skrifað heillengi hérna. Allskonar ástæður, meira um það seinna, kannski.

Ég hef ekki lítið gert grín að "sexí spinning" tímunum í World Class. Hugmyndin er fáránleg að mínu mati en kannski er það bara af því að mér er lífsins ómögulegt að hreyfa mig og vera sexí á sama tíma. Þetta bara fer ekki saman þegar maður hefur tilhneigingu til að breytast í tómat ef maður labbar 5 metra, ég verð eldrauð í framan um leið og ég reyni hið minnsta á mig og til að kóróna fegurðina svitna ég svo eins og svín. Ég horfði líka með fyrirlitningu á gellurnar farða sig í búningsklefanum og labba svo út og upp á hlaupabrettið. Ég get ekki einu sinni málað mig eftir æfingu vegna þess að það tekur mig góða klukkustund að hætta að svitna, hvað þá fyrir hana. Maskarinn, meikið og allt heila klabbið myndi leka beint ofan í augun á mér og ég yrði þá hálfblind til viðbótar við rauða tóninn og svitabaðið.

En í gær prófaði ég alveg nýjan hlut. L.A. útgáfuna af sexí spinning. Og það var alveg óvart. Ég fór í jóga, tími sem ég hef oft farið í áður. Kennarinn er æðisleg Kaliforníu týpa sem hefur eytt dágóðum tíma í Indlandi og kennt jóga út um allar heimsins trissur, Kanarnir myndu  kalla hana "free spirit". Hún hóf tímann með að segja Amerísku teprunum frá því þegar hún kenndi jóga í Amsterdam, þar sem allir fóru saman í sánu á eftir, karlar og konur, allir naktir og ekkert mál. Þá byrjuðu við sem mættum í tímann að svitna á efri vörinni. Hvert var hún að fara með þetta. Jú, í tilefni þess að Valentínusardagurinn væri handan við hornið, þá ætluðum við að nota tímann, eina og hálfa klukkustund í það sem hún kallaði "félagajóga", allar stellingar sumsé gerðar með félaga. Ronnie, ítalskur maður, var félagi minn. Sumir voru með félaga af sama kyni, aðrir af gagnstæðu, allur gangur á þessu. Ég hef aldrei hitt Ronnie áður en á þessum eina og hálfa tíma urðum við nánari en margir eru sínum eigin mökum. Hann þurfti ítrekað að beita hendinni á "sakrum" hlutann á mér en fyrir þá sem tala ekki "jóga" þá er það svo gott sem rassinn á mér. Við gerðum líka Kóbra slönguna beint á móti hvort öðru og kennarinn hvatti okkur til að nýta tækifærið og kyssast ef við vildum. Við Ronnie vorum ekki í stuði til þess, rétt að taka það fram. Svo hentumst við í svona félaga þríhyrningsstöðu einhverja þar sem við gripum up lappir hvors annars með einni hendi og sveifluðum annarri löppinni upp á mjöðmina á hinu. Þessu slúttaði hún svo með því að láta okkur setjast klofvega ofan á hvort annað þar sem maður var með hnén dregin inn og svo rugga sér. Svona í alvöru. Við Ronnie vorum bara að hittast þarna í fyrsta sinn. Hann er smávaxinn og lægri en ég. Ég leit út eins og risavaxin tröllskessa við hliðina á honum. Þurfti svo að setjast ofan á hann og juða mér. Einmitt!

Ég reyndi að setja enga þyngd ofan á greyið manninn, juðaði mér til málamynda rauð í framan, sambland af áreynslu og hreinum vandræðagangi. Reyndi á sama tíma að kreista rasskinnarnar fast saman því ég var búin að þurfa að prumpa síðan tíminn byrjaði en það fannst aldrei tími til að sleppa því út. Ronnie var alltaf að mér fannst með andlitið nálægt rassinum á mér. Það hafðist sem betur fer! 

Ég settist út í bíl að tímanum loknum og lét prumið vaða í einverunni. Ég á ekki von á að heyra frá Ronnie aftur, held þetta hafi verið einnar nætur gaman!


Þegar Ameríka borðaði börnin mín!

muaDIlb

Þessi morgun var hlaðinn amerískum staðalímyndum. Einu sinni í mánuði er í skóla stórunnar minnar haldin útisamkoma með foreldrum og börnum. Einhverjir krakkar sýna listir sínar, dregið er úr gulum miðum sem krakkarnir fá fyrir framúrskarandi hegðun í skólanum og þau mynduð til að markera áfangann og svo óhjákvæmilega er fánanum sýnd tilskyld hollusta og þjóðsöngurinn sunginn af ungri stúlku með brostinni röddu enda lagið til þess gert að raddir brotni á hæstu tónum.

 

En í dag tók steininn úr.

 

Viðburðurinn byrjaði á klappstýruliði skólans, nýjung sem tekin var upp á þessu ári og flestum finnst til stórkostlegra bóta. Þetta eru krakkar á aldrinum 5-10 ára, svo það sé á hreinu. Það var haldið inngöngupróf fyrir þessu litlu grey þar sem þau þurftu að sýna að þau hefðu það sem þarf til að fá að vera klappstýra. Aftur, þetta eru 5-10 ára gamlir krakkar, á ekki að leyfa öllum að vera með sem það vilja? Þau sýndu listir sýnar í klappstýrubúningum sem líta út eins og klæðnaður starfsstúlknanna á Hooters, hoppuðu, skoppuðu og á tímum fettu sig og hristu eins og þau væru stödd í tónlistarmyndbandi. (Ég segi „þau“ vegna þess að það eru tveir drengir sem hafðir eru með til málamynda) Á þetta horfa dætur mínar og ég óttast það mjög að þeim kunni að þykja þetta eftirsóknarvert. Ég veit ekki hvort er verra, að þær þreyti inngönguprófið og komist inn eða þær þreyti það og komist ekki inn.

 

Svo kom að því að fánanum væri flaggað, börnin, foreldrar og kennarar stóðu upp, lögðu hönd á hjartastað og sóru fánanum og Bandaríkjunum hliðhollustu sína: „I pledge allegiance to the Flag of the United States of America, and to the Republic for which it stands, one Nation under God, indivisible, with liberty and justice for all.“ Eins gott að það standi þarna „under God“, því var bætt við árið 1954 og er auðvitað til stórkostlegra bóta (lesist með kaldhæðinni röddu). Þegar ég var í Landakotsskóla 1986 hófst hver dagur á því að við nemendurnir stæðum fyrir aftan stólinn okkar og færum með faðirvorið. En það var einkaskóli, ekki almenningsskóli, foreldrar mínir vissu að hverju þau gengu þegar þau settu mig þangað inn, höfðu val um hvort þau vildu að ég tæki þátt í slíkum gjörningi eða ekki.

 simpsons-pledge

Svo var það pínlegur söngur stúlkugreys þar sem rödd hennar brast aftur og aftur og aftur. Ég er bara of meðvirk fyrir þetta, í hvert sinn sem ég heyrði í hvað stefndi tók hjartað aukakipp og ég fann svo til með henni. Hvernig verður þetta ef mínar verða einhvern tímann settar í þetta hlutverk. Ætli það setji mig algjörlega á hliðina eða verð ég mögulega orðin nógu amerísk til að standa stolt á hliðarlínunni með vídeókameru í einni og ameríska fánann í hinni?

 

Eins og þetta hefði ekki verið nóg fyrir þennan morgun þá tók svo við frumflutningur á lagi sem einn faðir í skólanum hafði samið honum til handa, flutt í tvígang undir undirspili. Þetta hefði verið ágætt ef það hefði ekki verið fyrir „ameríska klappið“ sem þá upphófst. Ef þú veist ekki hvað „amerískt klapp“ er þá er bara að horfa á einhverja dramatíska, ameríska mynd. Það byrjar þannig að einn byrjar að klappa með dramatískum tilþrifum og svo tekur einn af öðrum undir þar til loks við sameinumst öll í klappinu. Þetta er staðalbúnaður á öllum sigurstundum í amerískum bíómyndum. Þannig að á meðan stúlkurnar tvær breimuðu í hljóðnemann slagorð skólans (sem er nú alveg ágætt) „be a friend, not a bully“ upphófst þetta svakalega væmna klapp og að lokum stóðum við þarna öll eins og klappandi hálfvitar (nema Íslendingarnir tveir sem horfðu illu og kaldhæðnu auga í kringum sig, eins andfélagsleg eins og hugsast getur).

 

Mér leið eins og Ameríka hefði ælt yfir mig eða eins og ég væri stödd í kvikmyndinni Alien og einhver vera hefði tekið sér bólstað í mér gegn vilja mínum. Hvað óttast ég mest? Að missa vitið, þ.e.a.s. að hætta að sjá þetta með mínum kaldhæðnu augum og fyllast einhverri undarlegri amerískri væmni þar sem ég fer að kunna að meta þetta í stað þess að gera grín að þessu og fyrirlíta þetta. Plís, ef þið verðið vör við slíkar breytingar í fari mínu, nenniði að koma að sækja mig? Þá er væntanlega orðið tímabært að fara í einhverskonar afvötnum, afameríkuvæðingu!


Lýs í rándýrum merkjafatnaði!

comics-married-to-the-sea-auto-218576

Ég man ekki eftir því að hafa fengið lús sem krakki en gleymi því seint þegar ég fékk hana eftir þrítugt. Dæturnar komu með þær heim af leikskólanum, svona eins og við tökum með okkur verkefni úr vinnunni. Ég taldi að við værum ónæm fyrir svona pöddufaraldri, klassískt „þetta kemur aldrei fyrir mig“ heilkenni. Góð vinkona var búin að kemba sig og börnin sköllótt eftir að þau byrjuðu á leikskóla, þar sem óhjákvæmilegur fylgifiskur er hótunarpóstar um lýs sem uppgötvast höfðu þann daginn eða hinn. Hún skammaði mig reglulega fyrir kæruleysi mitt og hló sig svo máttlausa þegar við iðuðum öll af hlaupandi pöddum. Gott „ég sagði þér það“ móment fyrir hana. Á Íslandi hoppar maður bara út í apótek. Kaupir sér eitthvað lúsasjampó, þvær liðið og kembir og málið er dautt.

Auðvitað er það ekki svo gott hér í Ameríku.

Fyrsti viðvörunarpósturinn um lús á leikskólanum barst á mánudegi. Við skimuðum barnið í fljótheitum, sáum ekkert, vorum með barnapíu á leið í partý, og ég var aftur orðin veik af „þetta kemur ekki fyrir mig“. Á þriðjudagsmorgni fáum við  meldingu um að leikskólinn vilji taka á lúsarmálinu af hörku, búið sé að boða til fagfólk í lúsarleitun og við munum fá að vita ef eitthvað leynist í kolli barnanna okkar. Ég var að sjálfsögðu sallaróleg þar til símanúmer leikskólans birtist á símaskjánnum hjá mér upp úr 10 þann morgun. Dómuri fallinn, leitarkonan fann nit, barnið þurfti að sækja hið snarasta.

Ókei, staðlað dæmi hugsa ég, apótek, kemba og málið dautt. Nei, auðvitað ekki. Mér var afhentur miði með upplýsingum um fagfólkið og sagt af leikskólastarfsmönnum að ég þyrfti að meðhöndla barnið, fara svo með það til fagfólksins og fá staðfest að við værum lúsarlaus. Það þyrfti skriflega staðfestingu frá þeim til að barninu yrði hleypt aftur í skólann. Einmitt. Til boða stóð að láta fagfólkið um að hreinsa hausinn á barninu, fyrir litlar 12 þúsund krónur á klukkustund. Áætlaður kostnaður við hausinn á orminum um 18-20 þúsund krónur í hreinsun. Nei takk sagði hagsýna húsmóðirin þá. Ég bókaði tíma í skann til að fá viðurkenningu um að mér hefði tekist að losna við pödduna en rauk svo út í apótek. Þar eyddi ég 8 þúsund krónum í allar þær tegundir af kömbum sem fundust og tvær tegundir af sjampói. Passaði mig á að kaupa eitthvað ægilega fínt sjampó og fékk svo þau ráð að lúsin hér væri eins og sú íslenska á sterum, það þyrfti miklar aðgerðir til að ná henni og það þyrfti að þvo allt hátt og lágt og spreyja með sérstöku spreyji það sem ekki var hægt að þvo. Hah sagði ég, glætan að einhver amerísk aumingjalús sé sterkari en víkingalúsin. Svo tóku við tvær klukkustundir þar sem ég setti allskonar í hárið á barninu og kembdi og kembdi og kembdi. Tók svo tvo kembingarrúnta í viðbót just in case. Þvoði 10 þvottavélar þann daginn, rúmföt okkar allra, allt sem höfuð barnsins gat hafa snert svo sem mjúka bangsa, kodda í sófum og svo mætti lengi telja. 

Þá þurfti að aka til fagfólksins eftir viðurkenningarskjalinu. Auðvitað, þegar maður býr í LA, þá er ekkert í  næsta nágrenni. Þetta var eins og að keyra til Selfoss nema bíll við bíl alla leiðina. Með börn í aftursætinu sem voru krumpuð eftir kembingar. Móðirin var komin við hættumörk í geðillsku þegar rannsóknin hófst hjá fagfólkinu og dómurinn var ekki lengi að falla. Enn fundust nit í hárinu sem þýddi að ég þurfti að rífa upp veskið. Lokatala dagsins var að ég eyddi 30 þúsund fokking krónum í lús á einum degi. Fyrir einhverja lífræna lúsarmeðferð hjá fagmanneskju með 11 ára reynslu í lúsarleitun!!!!! Fyrir utan 2 klukkustundir heima með kambinnn, klukkutíma í bílnum hvora leið og yfir klukkustund með sérhæfða fólkinu. Sem betur fer dugðu aurarnir fyrir viðurkenningarskjalinu og barnið fór í leikskólann daginn eftir. Og við borðuðum pasta það sem eftir lifði mánaðar. Ég get víst hrósað happi, önnur mamma á leikskólanum var svo óheppin að lúsin hafði dreift sér á alla fjölskylduna meðan litlan mín var ein með þetta hér á heimilinu. Hún hafði því borgað hátt í 100 þúsund þegar yfir lauk í meðferðir og krem og sprey og hvað þetta heitir ekki.

Það er ljóst að ameríska lúsin er ekki á sterum, en hún er sennilega íklædd gucci og prada því dýrari lús getur varla fundist? Er það?

Jákvæði punkturinn í þessu? Tja, ef ég flyt aftur til Íslands þá er ég með skothelda viðskiptahugmynd. Opna mína eigin lúsaleitunarstofu. Verst hvað ég held að ég væri alltaf með blóðugan hársvörð því ég má ekki heyra orðið lús án þess að mig klæji.

lice

Hversu oft klóraðir þú þér í hausnum meðan þú last þetta? Einmitt!

 

 


Að búa með þremur svínum!

Þegar ég bjó á Íslandinu fagra átti ég mér minn eigin verndarengil. Konu sem var fyrir mér eins og álfkonan góða í Öskubusku. Hún birtist heima hjá mér vikulega og breytti svínastíu í paradís. Já, ég var með konu sem þreif heima hjá mér vikulega og ég skammast mín ekkert fyrir það. Þvílík himinsæla sem slík fjárfesting er. Þetta byrjaði allt eftir að ég fór að vinna eftir fyrra fæðingarorlofið því ég kaus að eyða helgunum með gullorminum frekar en að þrífa. Sá aldrei eftir aurnum og hugsaði oft að ég myndi frekar lifa á pasta en að hætta með húshjálp.

7d438c0c6425268f6eaf554b18a4d84e

Eftir flutningana hef ég hinsvegar ekki komið mér aftur að því að fá húshjálp. Að hluta til vegna þess að reka heimili á einum launum þó góð séu gefur  kannski ekki mikið fjárhagslegt svigrúm. Það svigrúm sem við höfum fer í "lúxusinn" leikskóla fyrir yngra afkvæmið enda verður geðheilsa mín seint metin til fjár. En ég er farin að hallast frekar að því að þetta sé húsmóðursamviskubitið sem ég þjáist af. Ég er þegar að taka stóran hluta af launum sem ég vinn mér ekki inn fyrir í að borga leikskólaplássið, á ég þá skilið húshjálp líka? Og ég sem hef engar tekjur? En er hægt að vera heimavinnandi húsmóðir og ekki með heimilshjálp? Horfið bara á Mad men þættina, þær voru allar með hjálp. Enda eyðileggur maður ekki góða handsnyrtinguna með því að setja hendi ofan í skúringarvatn. Og jeremías hvað ég sakna álfkonunnar minnar góðu. Ætli hún vilji flytja til LA?

images-2

Allavegana. Í dag þreif ég mér til óbóta. Mér er illt í hægri handleggnum af því að hamast við að skúra, skrúbba og bóna. Hamagangurinn var slíkur að ég brenndi fleiri kaloríum en ég hefði gert í sexí spinning með Sveini Andra. Svitinn bókstaflega lak af enninu á mér. En það sér ekki högg á vatni. Kámugir veggir eftir putta sem þurfa að snerta ALLT ALLTAF, 

Funny-Memes-Floorskattahársflygsur, tómatsósa og skítur. Bitur og tuðandi ásaka ég eiginmanninn um að hafa ekki sinnt heimilisverkunum sem skildi og bendi honum á fingraförin á veggjunum. Sár segir hann mér að hann hafi gert allt til að ná þessu af en ekkert gengið. Ég bendi honum þá á töfrasvampinn sem sérstaklega er ætlaður til verksins sem hann segist hafa fullreynt en ekki virkað. Spyr svo álkulega hvort það eigi kannski að bleyta svampinn áður en hafist er handa???!! Ég hefði getað öskrað. En í staðinn settist ég niður og skrifaði þennan póst.

Takk fyrir að bjarga hjónabandinu mínu internet. Ef það væri ekki fyrir þig þá væri ég mögulega búin að ganga berserksgang!


Með sveitta rassaskoru

11019461_10153517649942990_8539924177511947903_n

28 stiga hiti og 92% raki. Svitinn lekur niður bakið á mér og niður í rassaskoruna. Því það er sexí! Já, ég er komin heim til Santa Monica, eftir að hafa farið heim til Íslands. Nú eru tveir staðir sem kallast "heima". Mánuður á Íslandi var yndislegur og erfiður. Alltaf bæði. Yndislegt að vera með fólkinu sínu. Erfitt að átta sig á að tíminn stendur ekki stað. Líf annarra hélt áfram þrátt fyrir fjarveru mína. Yndislegt að vera heima en erfitt að vera ekki heima hjá sér. 

11696583_10153504582762990_885761529210852584_o

En ég er úrvinda eftir þetta frí og þyrfti helst að fara í frí frá börnunum núna. Mánuður með börn í ferðatösku og engri rútínu. Þær áttuðu sig illa á miðnætursólinni og stöðugri birtunni og sofnuðu aldrei fyrr en undir miðnætti. Báðar komnar á þann aldur að hver einasti hlutur vekur upp spurningu, þetta var eins og að vera í endalausum hraðaspurningum í Gettu Betur! Afhverju ertu í þessum skóm mamma? Afhverju er ekki dimmt á Íslandi? Afhverju búum við ekki hér? Afhverju, afhverju, afhverju? Þær voru eins og rassálfarnir í Ronju ræningjadóttur á spítti. Dreptu mig! Ekki bætti úr skák að ísátið stigmagnaðist eftir því sem leið á ferðina og einn daginn var ís í morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Yfirleitt hef ég dregið línuna við einn á dag en þann daginn var búið að vefja ömmunni um puttann á sér og spila á alla tilfinningastrengi hennar með gráti og drama sem skilaði sér með þessum hætti.

10002937_10207085096068120_6104945583545532509_n

Við þeyttumst landshorna á milli, keyrðum yfir einbreiðar brýr og í gegnum einbreið göng. Hentumst í sund og á besta veitingastað Reykjavíkur, Bæjarins bestu. Tróðum okkur út af hvítlauks naan á Austur Indía og lifðum fyrir ísinn í Ísbúð Vesturbæjar (þessi blogg póstur er ekki styrktur, ég eyddi öllum íslensku krónunum mínum í dýrðina!). Við drukkum íslenskt vatn beint úr krananum og dáðumst að ofgnótt vatnsins á Íslandi, komandi frá þurrkasvæðinu LA þar sem vatn er skammtað, meira að segja í sturtunni.

11702720_10207080674917594_2175883730648230229_n

Við borðuðum lambakjöt og plokkfisk með bestu lyst, rúgbrauð með þykku lagi af íslensku smjöri. Hjartað barðist í brjósti mér af stolti yfir íslenska fánanum á 17. júní og allt kveikti minningar barnæskunnar. Sigmundur hefði verið stoltur af okkur. Við vorum næstum búin að sækja um vinnu í Áburðarverksmiðju, svona þar til við áttuðum okkur á grimmilegum raunveruleikanum. Verðbólgan upp á sitt besta, húsnæðisverð í hámarki, heilbrigðiskerfið lamað og skammsýnin ráðandi í einu og öllu. Og það versta? Auðmenn á þingi talandi um hvernig ungir sem aldnir ættu bara að æfa sig í að fara betur með peningana sína. 

11412028_10153504962632990_7460040707568502446_o

Og svo fórum við heim. Erfiðar kveðjustundir, ótti við að sumar yrðu þær síðustu, að einhverjir yrðu horfnir á braut þegar næst yrði flogið heim. Svo skrítið hvernig algjörlega andstæðar tilfinningar héldust í hendi alla ferðina og enduðu á þeim nótum líka. En svo mundi ég það sem mamma segir: "Gleði og sorg eru systur sem haldast í hendur" og einhvern veginn á það svo vel við um tilfinningar mínar núna. En  skrambi var nú fínt þegar dæturnar sofnuðu upp úr 8 í gær, í töluvert betra jafnvægi eftir ferð í amerískan súpermarkað þar sem við keyptum fjall af sumarávöxtum sem þær borðuðu í stað ísa og nammis.

Þar til næst elsku Ísland, plís ekki verða orðið að einni skítahrúgu eftir ferðamennina.

 


Fögnum fjölbreytileikanum!

674cba6dca7fe22e1254db64bc4668f3Frá því ég man eftir mér hef ég átt í baráttu við sjálfið mitt. Fundist ég ekki nógu góð, ekki nógu sæt, ekki nógu mjó, ekki nógu klár, bara alltaf „ekki nógu“! Lengi vel eyddi ég tíma í að velta mér upp úr vanköntum mínum í stað þess að fagna því góða í fari mínu og leyfa mér að njóta þess einfaldlega að vera ég sjálf. Ég hef, eins og flestar konur, misþyrmt mér í þeim tilgangi að líta betur út, sem betur fer án þess að hljóta af því alvarlegan skaða. Fyrir ferminguna ákvað ég að hvíti kyrtillinn passaði betur við sólbrúnt hörund en minn hrímhvíta lit. Ég heimsótti því í ófá skipti ljósabekkinn í Vesturbæjarlauginni en það eina sem ég hafði upp úr krafsinu var sólbrunninn rass. Ég fór í svona rafstuðstæki sem átti að gera mig mjórri, tók Herbalife með trompi, svelti mig, gekk á skóm sem mig verkjaði undan, plokkaði, litaði og svitnaði, allt í nafni þess að vera einhver önnur en ég er.

Samfélagið rembist við að troða upp á okkur lausnum til að losa okkur undan göllum okkar og hamast við að fella okkur öll í sama formið. Feitt fólk sætir ofsóknum og umræðan einkennist af fordómum og mannhatri í stað þess að byggja á ást og að kenna okkur að elska okkur eins og við erum. Líkamsvirðing væntanlega betur til þess fallin að hjálpa fólki eins og mér í stað þess að suða stöðugt um það hve mikill baggi ég er á heilbrigðiskerfinu.

Ég á tvær ungar dætur. Samfélagið hefur enn ekki náð að læsa klónum í þær og segja þeim að þær séu ekki nógu góðar. Önnur er svolítið búttuð og hin ógurlega grönn, líklegast að báðar yrðu þær fórnarlömb þeirra sem þola ekki að við séum ekki öll eins, annarri sagt að hún sé of feit og hinni að hún sé of mjó, það á enginn séns í að vera til þessa dagana! En ég hef miklar áhyggjur fyrir þeirra hönd. Það sem ég óska þeim er að þeim líði vel í eigin skinni og að enginn muni telja þeim trú um að þær séu „ekki nógu“ eitthvað, hvað svo sem það kann að vera.

En það er erfitt að halda í vonina þegar að fylgst er með fréttum.

Óteljandi stúlkur taka nú þátt í áskorun í nafni Kylie Jenner (einni af Kardashian- klaninu) til þess að fá þrútnar varir. Þær nota flöskustút sem þær troða vörunum inn í og halda þeim þannig í 30 mínútur eða lengur. Niðurstaðan eru bólgnar og marðar varir sem þeim virðast fallegar, en eins og með svo margt er þetta ekki hættulaust. Dæmi eru um alvarlegan og varanlega skaða af þessari tilraun en þrátt fyrir aðvaranir bætast stöðugt við myndir af stúlkum með þrútinn stút á vörunum. Kylie Jenner kom seint og um síðir opinberlega fram og sagði stúlkum að þær ættu ekki að reyna að líkja eftir neinum heldur að vera þær sjálfar en það var of seint, faraldurinn fer um netheima eins og eldur um sinu.

Svo er það hin 21 árs gamla Eloise Perry sem lét lífið eftir að hafa tekið inn eitraðar megrunarpillur keyptar á netinu. Hún tók langt umfram banvæna skammtinn og brann upp innan frá meðan læknarnir stóðu ráðalausir hjá. Hún ætlaði bara að skafa af sér einhver kíló, kannski sagði henni einhver að hún væri of feit, kannski voru gallabuxurnar of þröngar þennan morguninn eða hún hafði áhyggjur af því að komast í kjólinn fyrir jólin.

Allt þetta á meðan Bjarnheiður er í stofnfrumumeðferð á Indlandi eftir að hafa svelt sig nánast í hel, svo mjög að hún fékk hjartastopp og endaði lömuð í hjólastól.

Allt er þetta gert í nafni fegurðarinnar, einhverra staðla sem þröngvað er upp á okkur og sem við, venjulegt fólk, eigum aldrei séns í, enda ekki með endalausa uppsprettu fjármagns sem má nýta í fegrunaraðgerðir og myndvinnsluforrit til að hreinsa upp það sem ekki mátti laga með hníf.

Og svo er það söngkonan Jamelia í Bretlandi sem hafði það að segja um feitabollurnar að það ætti að hætta að selja föt fyrir þær á Oxfordstræti því það myndi bara hvetja þær til að vera feitar áfram í stað þess að fara í megrun. Skömmin myndi reka þær af stað því þegar að þær ættu bókstaflega ekkert nema sorpsekk til að fara í. Akkúrat. Því það er þetta með skömmina, hún er öflugt verkfæri í höndum þeirra sem hata, vopn sem hægt er að beina að svo gott sem hverjum sem er.

Það þurfti það til að ég eignaðist dætur mínar til að ég tæki sjálfa mig í sátt. Ég uppgötvaði þá að það mikilvægasta sem ég gæti kennt þeim væri að líða vel í eigin skinni, elska sjálfar sig. Ég veit nú að lífshamingja mín veltur ekki á tölunni á vigtinni eða andlitinu í speglinum. Lífið er núna. Ekki þegar ég er búin að missa x mörg kíló. Og ég ligg á bæn um að mér takist að telja dætrum mínum trú um það sama. Mín ósk til þeirra er sú að þeim haldi áfram að líða vel í eigin líkama og að öðrum takist ekki að þröngva upp á þær skoðunum sínum um hvernig við eigum að líta út. Að aðrir nýti sér ekki útlit þeirra til að gera lítið úr þeim, draga úr þeim lífsgleðina og kraftinn. Kennum börnunum okkar að elska sig og aðra og að koma fram við fólk af virðingu og ást. Fögnum fjölbreytileikanum, mikið væri lífið leiðinlegt ef við litum öll út eins og Kylie Jenner!

 

 

 

 

 

 

 


Rangur maður á röngum tíma...

Forgot-Phoenix-Doh-530x520Ég var eitt sinn þekkt meðal vina minna og fjölskyldu fyrir afbragðs gott minni og skipulagshæfileika. Minnið var gæfa mín og bölvun, ég mundi hvert einasta smáatriði sem gat komið sér vel. Til dæmis þegar ég var að rífast við kærastann sem hefur alltaf þjáðst af minnisleysi, ég gat rakið ofan í hann málavexti langt aftur í tímann og hann þurfti bara að kyngja því sem ég sagði, greyið mundi ekkert en ég allt. Þannig gat ég oftar en ekki snúið hlutunum mér í hag. En stundum, þegar mig virkilega langaði til að geta gleymt einhverju eins og vandræðalegu augnabliki, leiðinlegu samtali eða öðru slíku, þá var það ekki í boði og því segi ég að minnið hafi líka verið bölvun mín. Ég sat uppi með minningarnar, góðar og slæmar.

Svo gerðist það að ég varð ólétt. Þið hafið öll heyrt talað um brjóstaþokuna góðu og lélegt minni kvenna með börn á brjósti. Ég varð fórnarlamb þess. Það gerðist trekk í trekk í fyrsta fæðingarorlofinu að ég mætti, sjálf eða með litlu fjölskylduna á rangan stað eða á röngum tíma. Ófá skiptin sem ég stóð í móttökunni í ungbarnaeftirlitinu og staðhæfði að ég ætti bókaðan tíma og varð svo að éta það ofan í mig aftur þegar ég skoðaði málið nánar. Ég vann örlitla fjarvinnu í fæðingarorlofinu, meðal annars við að bóka fundi á ráðstefnu fyrir karl föður minn. Hann hringdi svo reglulega þar sem hann stóð einhversstaðar samkvæmt planinu frá mér en enginn til að hitta hann, fundurinn ýmist liðinn eða hann langt á undan áætlun. Skipulagshæfileikarnir ásamt minninu gufuðu bara upp, ég var orðin óskipulögð og gleymin. Við skrifuðum þetta á brjóstaþokuna og ég gerði ráð fyrir að þetta væri tímabundið. En hér er ég enn. Næstum sex árum síðar. Og sendi enn fólk á rangan stað eða með vitlausar tímasetningar og get treyst því að ef ég skrifa það ekki hjá mér (gleymi því oftast) þá týnist það í gleymskunnar dá.

Fyrir tveimur mánuðum bókaði ég okkur hjónin á uppistand með æskuhetjum eiginmannsins, þeim Jay og Silent Bob. Viðburðurinn var staðsettur á einhverju sem var kallað Brea Improv og á einhverri Brea götu. Þetta hljómaði dável. La Brea gatan er hérna rétt hjá mér, í vondri umferð værum við 30 mínútur á staðinn en á laugardagseftirmiðdegi kannski 20 mínútur. Í vikunni sem leið fór ég svo að undirbúa þetta allt saman, staðfesta barnapíuna og fara yfir tölfræðina, hvenær þyrfti pían að mæta til að við kæmumst á réttum tíma og svona. Henti þessu öllu upp í Google Maps til þess eins að komast að því að viðburðurinn var bara alls ekki í Los Angeles. Hann var á Brea götu já. En það var í bænum Brea í Orange County. 70 km frá okkur. Sem hljómar ekki hræðilega. En bættu við umferðaröngþveitinu sem umlykur okkur og þá ertu kominn með 2 tíma í akstur, HVORA LEIÐ! Og barnapían á 15 dollara klukkutímann, það gerir 60 dollara bara fyrir það að komast á staðinn og af honum og þá á ég eftir að hlusta á klúra brandara þeirra Jay og Bob í tvo tíma. Fokk! Jæja. Við létum okkur hafa það. Keyrðum heila eilfíð, hlustuðum á Jay tala um vandræðaleg móment í kynlífinu, dópið og nýja barnið og komumst svo heil heim.

Nema hvað. Í gær átti ég stefnumót við tvær æðislegar konur og botnlausar mímósur á veitingastað hér í borg. Eiginmaðurinn bauðst til að taka dæturnar og fara með þær í barnaafmælið sem var bókað í dagskránna okkar fyrir einhverjum vikum síðan. Við byrjuðum daginn á að versla afmælisgjöfina, dæturnar skrifuðu á kort og voru frekar spenntar að komast í þetta afmæli enda von á góðri skemmtun. Ég sat áhyggjulaus á meðan með mímósuna mína. Svo hringdi elskan úr garðinum þar sem afmælið var. Bað mig fallega um að líta aðeins betur á boðið sem ég fékk í tölvupósti, hann væri nýbúinn að ryðjast inn í eitthvað afmæli en þar væri ókunnugt barn og allir hefðu horft undarlega á hann. Ég lagði á og skoðaði málið nánar. Hann var á réttum stað á réttum tíma, en auðvitað á röngum degi. Þarna var hann mættur galvaskur með börnin viku á undan áætlun.

Sem betur fer er ég vel gift, eiginmaðurinn hefur töluvert meira af þolinmæðinni en ég. Ég hefði auðvitað öskrað í símtólið hefði ég verið hans megin. En hann kvaddi mig ljúflega og tæklaði vonbrigði barnanna með glæsibrag.

Og ég veit alveg hvað þið ætlið að segja. Afhverju tvítékkarðu ekki hlutina fyrst þú ert svona? Og það eina sem ég hef að segja við því er “AF ÞVÍ ÉG GLEYMDI ÞVÍ!”

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband