Hleyp rassinn úr buxunum!

IMG_6489Er eitthvað sem segir að maður sé í fantaformi eins og að stunda útihlaup? Ég hef alltaf dáðst að fólki sem hleypur, hvað þá á Íslandi í því veðravíti sem það er!

Útihlaup eru gríðarlega vinsæl hér í borg og auðvelt að skilja það. Það er alltaf sól og kjörhiti á morgnanna, um 15 -20 gráður. Vinsælasta hlaupaleiðin er að sjálfsögðu meðfram sjónnum á því sem þeir kalla "Boardwalk" og hægt að hlaupa hverfanna á milli eftir þessum fína stíg. Ég hef horft löngunaraugum á þetta fólk og óskað þess að ég væri í þannig formi að ég gæti hlaupið. Margt sem stendur í vegi mínum, áreynsluastmi sem lætur á sér kræla helst ef ég fæ flugur í höfuðið um hlaup, aukakílóin, en mest ég sjálf og sú staðreynd að ég hef talið mér trú um það að ég geti ekki hlaupið frá því ég var um það bil 8 ára. 

Svo kom þetta flotta myndband, "This Girl Can" eða "Þessi stelpa getur það" sýnt í vetur. Konur, af öllum stærðum og gerðum að stunda hinar ýmsu íþróttir. Og það var hressandi. Fyllti mig innblæstri. Það er nefninleg erfitt að vera feitur en vilja samt hreyfa sig og stunda íþróttir. Tískumerkin sem hanna íþróttafatnað hugsa flest um grannt fólk og hanna fötin á þau en láta sem við hin séum ekki til. Þegar við förum í líkamsræktarstöðvar þurfum við að óttast að einhverjir séu í illum tilgangi að taka vídeó af okkur, gera grín að því hvernig við lítum út þegar við hreyfum okkur. Dæma okkur. Ekki þægileg staða að vera í. Allavegana. Þetta myndband sýndi mér í eitt skipti fyrir öll hvað það er drullu flott að taka á því, sama hvernig maður lítur út.

Unknown-4Ég ákvað því að sigrast á ótta mínum og byrja að hlaupa. Ókei, skokka. Fékk mér þetta snilldar forrit í símann minn sem stuðlar að því að koma manni upp úr sófanum og í það að skokka 5 kílómetra. Dagur 1 var með þeim vandræðalegri get ég sagt ykkur. Planið er að hita sig upp með röskri göngu í 5 mínútur, svo er hlaupið í 60 sekúndur og gengið í 90 sekúndur til skiptis í 20 mínútur, í lokin er svo 5 mínútna ganga til að kæla sig niður. Hljómar einfalt, ekki satt? Og það hefði verið það. En ég var að takast á við það sem á enskunni er kallað "wardrobe malfunction". Klæðnaðurinn þennan daginn var bara ekki með mér í liði. Buxurnar reyndust, við þokkafullar hreyfingar mínar við hlaupin, ekki geta haldist uppi um mig. Voru í sífellu að renna niður lappir mínar. Þannig að þarna "hljóp" ég, með símann í einni hendi og heyrnartólin tengd þar við (Nauðsynlegt því þar var rafræn rödd sem sagði mér hvenær ég ætti að hlaupa og hvenær ég ætti að labba og þess á milli hvatti Beyoncé mig áfram) og svo notaði ég hina hendina til að reyna að halda brókunum uppi um mig. Djöfull vona ég að enginn hafi séð mig. Ég þrjóskaðist nú samt við og kláraði þennan fyrsta dag í takt við rafrænu röddina úr símanum. Kom rauð og sveitt heim en svo stolt.

This_Girl_CanSíðan þá er ég búin að fara þrisvar út til viðbótar en í buxum sem eru númeri minni og haldast svo gott sem uppi um mig án mikilla erfiðleika. Í gær þegar ég fór út að hlaupa komst ég á þann stað meira að segja að sæti gaurinn sem hljóp í veg minn brosti til mín og kinkaði kolli til mín. Sjáiði til, nú erum við systkini í hlaupunum. Eigum eitthvað sameiginlegt. Tölum sama tungumál. Hann hafði ekki hugmynd um að um leið og hann var úr augsýn sagði rafræna röddin mér að ég væri búin með 60 sekúndurnar og ég ætti að byrja að ganga. Sem ég gerði auðvitað. Hann hélt bara að ég væri eitursvalur hlaupari. 

Svakalegum árangri náð á einni viku eins og þið sjáið. Það er búið að taka mig inn í hlaupasamfélagið. Hugsið ykkur hvað getur gerst ef ég held áfram og klára prógrammið? Mögulega gæti ég staðið í iðandi þvögu hlaupara, farið að hlaupa til styrktar góðgerðarmálum og svo framvegis. Engar áhyggjur samt, ég er ekkert á leiðinni í maraþon á næstunni, bara að dúlla mér hérna í hverfinu. Í næsta húsi við mig er starfræktur hlaupahópur, næsta markmið er að þora þangað inn. Áfram ég!


Prinsinn á sportbílnum

Ég þarf að gera hreint fyrir mínum dyrum. Játa svolítið. Segja sannleikann um afar viðkvæmt mál sem gæti stuðað marga.

 

50_shades_of_grey_wallpaper_by_theanyanka-d6u4od0_png.jpg

ÉG ELSKA 50 Gráa skugga. Sorrí. Það er bara þannig. Ég veit að það þykir ekkert sérstaklega smart en maður verður að standa með sjálfum sér. Ástæðurnar eru margar. Við skulum ekki gleyma því að ég starfaði við bókaútgáfu. Var sú sem sá um að bjóða í herlegheitin fyrir hönd Forlagsins þegar bækurnar voru að tröllríða öllum metsölulistum. Ég hafði ekki einu sinni lesið bækurnar en var samt að bjóða verulegar upphæðir í þýðingarréttinn. Hvernig var annað hægt? Þetta var algjört fenómen, af sömu stærðargráðu og Harry Potter. Bókaútgefendur og bóksalar um allan heim elska þessar bækur. Ástæðan er einföld. Þær fengu fólk sem venjulega myndi ekki versla í bókabúðum til að koma þangað og kaupa þrjár heilar bækur. Og við skulum hafa það á hreinu að þessar bækur eru engin þunnildi. Við erum að tala um fólk sem hafði ekki lesið síðan í skóla sem las allt í einu upp til agna næstum 1500 blaðsíður. Það segir manni ýmislegt.

Engar áhyggjur. Ég fór ekki varhluta af því að þær hefðu svo sannarlega getað verið betur skrifaðar. Miklu betur. Og það var margt í bókinni sem vakti upp spurningar. En ég skrifaði það allt saman á þá staðreynd að um væri að ræða fantasíu höfundar. Og það er sjaldan sem fantasíur rata nánast óritskoðaðar á prent. Ef þið vitið ekki baksöguna þá er hún sú að E. L. James var mikill aðdáandi Vampírubókanna, Twilight, eftir Stephanie Meyer. En Meyer er Mormóni að trú sem hafði heilmikil áhrif á skrif hennar, til dæmis með því að Bella og Edward sváfu ekki saman fyrr en í síðustu bókinni, þegar þau voru búin að gifta sig auðvitað, þrátt fyrir kynferðislega spennu sem sprengdi alla jarðskjálftamæla. Þetta fannst James erfitt að eiga við, svo hún bjó til hliðarveruleika, með Ana og Christian, sem voru byggð á söguhetjum Meyer nema í stað þess að bíða eftir hjónabandi tók hún þetta upp um þó nokkur stig! Herlegheitin birti hún fyrst á aðdáandasíðu Twilight bókanna og þaðan fór þetta að vinda upp á sig. Þetta er sumsé fantasía hennar um það sem hefði getað orðið í Twilight ef höfundurinn hefði ekki verið Mormóni.

Allavegana. Þegar ég var búin að ganga frá útgáfusamningnum um þýðingarréttinn settist ég loks niður til að lesa fyrstu bókina, ég varð jú að vita hvað við vorum að fara að gefa út. Ég varð strax frekar áhyggjufull, bækurnar voru ekki með því betra sem hefur verið skrifað hvað varðar stíl og uppbyggingu. En áður en ég vissi af mátti ég ekki vera að því að velta mér upp úr þessu lengur. Ég var komin á bólakaf í svakalega djúsí ástarsögu. Það leið ekki á löngu áður en ég hætti að nenna að lesa lýsingar af því þegar þau voru að gera það, það var bara  þreytandi, hún bítur í vörina á sér, hann verður æstur, klípur í geirvörturnar á henni og hún fær það. Þetta var skemmtilegt í fyrstu 2 skiptin en þegar þetta var búið að gerast 100 sinnum þá skipti það mig engu. Nei, það var ekki kynlífið sem hélt mér hugfanginni. Það var rósrauða hugmyndin um valdamikinn, myndarlegan mann sem sýnir venulegri stúlku áhuga. Svo mjög meira að segja að hann brýtur allar sínar persónulegu reglur fyrir hana og henni tekst það sem svo mörgum konum tókst ekki áður, að breyta honum, gera hann að betri manni. Í alvöru. Hver hefur ekki orðið skotin í bad boy með von í hjarta um að hafa það sem til þarf til að gera hann að frambærilegum manni? Og þarna var þetta komið á prent, hann, erkimynd vonda stráksins og hún svo saklaus. Fullkomið. Eða okei, ekki fullkomið en þetta dugði. Ég las allar bækurnar með ánægju. En ég hefði líka getað fókuserað á aðra hluti, stjórnsemina í honum, andlega ofbeldið og allt það. En er þá eitthvað að mér? Ég bara missti sjónar á því fyrir ástina. Allt fyrir ástina!?! Hvað er að mér? Er þetta af því ég hef séð of margar Disney myndir? Eða mögulega af því að ég lék mér aðallega með Barbie sem krakki?

50-shades-of-grey-official-trailer-0.jpgSíðan ég las bækurnar hefur mikið verið um þær skrifað, þær gagnrýndar harðlega, ekki síst fyrir þá mynd sem dregin er upp af þessu sambandi sem, ef það er skoðað nánar, er mjög ofbeldisfullt og rangt á marga vegu. Ég hef því farið leynt með hrifningu mína á bókunum og sagði fáum frá því þegar ég rauk í bíó á frumsýningarhelginni. Ég var næstum með samviskubit, leið eins og ég væri að svíkja kynsystur mínar. En ég gaf skít í það og fór nú samt. Myndin var allt sem ég vonaði að hún yrði og svo miklu meira. Sorrí með mig. En hún var æði. Með styttingu yfir í bíómynd var allt þetta innra samtal sem Ana á við sig í bókunum sem var oftar en ekki frekar vandræðalegt með tali um sína innri gyðju horfið. Horfin var líka þráhyggja hans um að hún borðaði og endalaus samtöl þeirra um það ekki til staðar. Og svo voru þau bara drullu sexí. Og ástarsagan hélt öllum sínum sjarma. Þarna var hann, ríki prinsinn á sportbílnum, til í að taka þessa hversdagslegu stelpu inn í ævintýraheiminn sinn. Ég skil afstöðu margra um að þarna sé verið að hampa ofbeldi gegn konum. En þetta er bók/bíómynd og er það ekki stundum svo að þar sé hampað hlutum sem eru siðferðislega rangir? Hvað með Wolf of Wall Street? Er þar ekki verið að hampa öllum hryllingnum?

Jæja. Þá er ég búin að segja það. Ég heiti Sif og ég elska 50 gráa skugga. Plís samt ekki dæma mig of hart. Ég sver, ég les líka bækur sem hafa hlotið stór verðlaun í bókmenntaheiminum, íslenskum og erlendum. Og ég er góð við börnin mín. Ég svík ekki undan skatti og borða mikið af grænmeti og ávöxtum. Ég er í alvörunni góð manneskja!!!


Kúrpartý í LA

snuggle-party-org-header52-1024x194

Snerting. Svo mikill partur af lífi manns. En ég hafði ekki áttað mig á því að það er fjöldinn allur af fólki sem fær litla sem enga snertingu í sínu daglega lífi. Ekki eitthvað sem ég þarf að velta mikið fyrir mér, ég er búin að vera í sambandi síðan ég var rétt rúmlega tvítug og eftir fjórtán ára samband nýt ég þess ennþá að leiða hann um götur bæjarins og knúsa hann daglega. Ormarnir mínir tveir eru stanslaus uppspretta snertingar, stundum einum of og þess utan á ég yndislega vini sem knúsa mig oft og reglulega. Raunar fer ég kannski í þveröfuga átt og nýt þess þegar ég get haft mitt persónulega rými út af fyrir mig en ekki deilt með hinum og þessum. En auðvitað eru margir sem eiga ekki maka eða börn eða beinlínis óttast snertingu. Það er víst líka til í dæminu nefninlega, að vilja ekki undir neinum kringumstæðum láta koma við sig.

Ég hafði lítið velt þessum málum fyrir mér þar til nýverið þegar mér barst boð í partý. Ekki í frásögur færandi öllu jafnan að fá event invite á Facebook, er það? Nema hvað. Boðið hljómaði undarlega. Mjög undarlega. Yfirskriftin var "Kúrpartý fyrir stelpur eingöngu" og innihaldslýsingin boðaði nuddlest (massage train, þú færð nudd og nuddar annan á meðan og svo koll af kolli), Dog pile (vissi ekki hvað þetta var þegar ég fékk boðið en það þýðir að liggja í einni kúrukös á dýnu/gólfi/rúmi, svona eins og litlir hvolpar, knús, kúr, koddaslagur (einmitt) og ýmislegt fleira sem ég átti erfitt með að skilja. Partýið var boðað á föstudagskvöldi og fólk hvatt til að koma í þægilegum fötum, jafnvel náttfötum og muna að boðið væri áfengislaust! Akkúrat það já. Mín fyrstu viðbrögð voru að sjálfsögðu að afþakka þetta stórfurðulega boð, jafnvel þó ég væri forvitin. En þá var rifjað upp fyrir mér áramótaheitið um að segja oftar já en nei og svo voru allir svo svakalega forvitnir sem ég sagði frá og vildu að ég færi í rannsóknarskyni fyrir aðra. Ég smellti á "join" og verð að viðurkenna að því fylgdi hnútur í maga. Hvert var ég eiginlega að fara? Var þetta lesbísk orgía í dulargervi? Hvað ef fólk vildi ólmt vera að þukla á mér allri gegn vilja mínum, gæti ég staðið með sjálfri mér eða yrði þetta eins og þegar ég byrjaði að reykja í gamla daga til að þóknast öðrum? 

Sem betur fer tókst mér að sannfæra tvær vinkonur um að fylgja mér, það er styrkur í hópnum sjáiði til. Á föstudagskvöldi, ómáluð og klædd í joggara lögðum við í hann. Gengum inn í notalega íbúð í Vesturbæ Los Angeles. Inni var kósý. Dýnur, koddar og teppi þöktu stofuna alla. Þarna voru milli 15 og 20 konur, allar undir fertugu sem þekktu gestgjafann úr ýmsum áttum. Gestgjafinn hafði verið áður í svona partýi en við hinar óreyndar og margar hverjar stressaðar. Gestgjafinn setti okkur niður í hring, ímyndið ykkur svona stuðningshópsfíling og byrjaði á að leggja grunnreglur kvöldsins. Og þá svitnaði ég all verulega. Hvar í skrattanum var ég lent? Grunnreglurnar voru þessar: Kvöldið allt ætti að vera það sem við í Ameríkunni köllum G rated, sumsé við hæfi barna. Það þýddi að öll snerting þyrfti að vera við hæfi barna, ekki mátt snerta líkama á bikinisvæði, kossar bannaðir og það sem fríkaði mig endanlega út var viðvörun um að ef að við fyndum fyrir kynferðislegri örvun þá ættum við að draga okkur í hlé meðan við jöfnuðum okkur. Þarna fór ég í algjört panikk og fullvissaði  mig um að útidyrahurðin væri á sínum stað. Einnig varð að spyrja leyfis áður en snerting hófst og við æfðum okkur í að segja nei takk við slíkum boðum ef okkur líkaði ekki hugmyndin sem lögð var fram. Við deildum svo grunn upplýsingum um okkur, hvernig við þekktum gestgjafann, hvað við vonuðumst eftir að upplifa þetta kvöld, hvað við óttuðumst og eitthvað í þeim anda og gerðum svo hópstyrkjandi æfingar, knúsuðum hver aðra (bara svona snöggt faðmlag) og eitt og annað. Svo var kvöldið gefið frjálst, frjáls snerting mátti nú fara fram innan rammans sem settur hafði verið.

snuggle-cuddle-lemurs-1024x681

Sjitt. Hvað gerir kona þá? Forvitni var það sem rak mig af stað í þetta partý og nú óttaðist ég að færi fyrir mér eins og kettinum og ég myndi drepast á staðnum. En svo fór ég bara að kjafta við konurnar. Ótrúlegur hópur kvenna, allar úr ólíkum áttum  með ólíkan bakgrunn. Og þannig eyddi ég kvöldinu. Í að kynnast konum sem ég hefði annars ekki hitt. Og allt án þess að snerta nokkra þeirra. Kom í ljós að mig langaði ekki til að snerta neinn. Ég var fullkomlega sátt við að sitja þarna og kjafta. Það góða var að það var fullkomlega í lagi, engin neyddur til neins sem hann vildi ekki. En að sama skapi truflaði það mig ekki neitt að einhverjar þarna vildu snertingu, þráðu hana beinlínis og óskuðu eftir henni, ég sagði bara nei takk. Þá rifjaðist upp fyrir mér vinahópurinn sem ég tilheyrði í kringum fermingaraldurinn. Við lágum oft í faðmlögum og knúsuðumst heilmikið, allt án þess að því tilheyrði einhver kynferðisleg spenna eða krafa. Og þegar maður eldist þá hættir maður að kúra með öðrum en maka sínum. Kannski eðlilega. Kannski ekki. Snerting er orðin svo mikið tabú. Svo mjög að kennarar mega ekki taka utan um nemendur sína og gengur svo langt hér í Ameríkunni að í sumum skólum mega börn (krakkar frá 5 ára aldri) ekki faðmast á skólalóðinni. Allir svo hræddir um lögsóknir hingað og þangað að það þarf að banna alla vinalega snertingu. Og mitt í þessari snertingarfóbíu er stórborgin búin að finna lausn með þessum knúspartýum. 

Ég fór heim þetta kvöld ansi hugsi. Knúsaði vinkonurnar mínar í bak og fyrir þegar ég kvaddi þær, knúsaði eiginmanninn þegar ég kom heim og kyssti sofandi dæturnar á ennið. Ég er sko ekki með neina snertingarfóbíu, ég er bara lítið fyrir að snerta ókunnuga. Enn sem komið er allavegana. Því næsta kúrupartý er þegar í sjónmáli og ég verð fyrst til að "joina" þann viðburð. Mögulega hendi ég mér beint í "dog-pile" þegar þangað er komið og sit svo föst í nuddlestinni það sem eftir lifir kvölds. Er þetta ekki einmitt það sem vantar á skerið? Ég legg til að byrja á að halda stjórnmálaknúspartý. Fá Framsókn, Sjálfstæðisflokk, VG og Samfylkingu saman í eitt gott kúrpartý, ég meina ástandið getur varla versnað við það?


Hrúgur og hrúgur af peningum!

spakona.jpgÉg hef aldrei verið týpan sem eltist við miðla eða spákonur. Ég er svo svakalega áhrifagjörn að ég hef trúað því að það sem sagt yrði við mig af slíkum aðilum myndi ég gera að heilögum sannleika í lífi mínu og gilti þá einu um hvað ræddi. En síðustu daga hefur verið hér yndislegur húsgestur. Og með það að leiðarljósi að segja oftar já en nei (áramótaheitið) þá settumst við niður hjá spákonu. Sú gaf sig út á að vera írsk og spáir í tebolla. Ég reið á vaðið. Hún var með te í skál sem hún byrjaði á að hræra einhver lifandis ósköp í og á meðan átti ég að setja drauma mína og þrár í hugsanir og senda út í skálina. Lítið mál. Svo settum við vinkonurnar bollann á bólakaf ofan í herlegheitin og lyftum loks upp úr skálinni. Vökvinn táknaði allar vondu hugsanirnar, óþægindi og aðra hluti sem maður vill ekki sjá í framtíðarspá svo við áttum að hella hægt og rólega vökvanum úr bollanum aftur, svo þegar ekkert var eftir nema jurtirnar hvolfa kvikindinu og snúa réttsælis. Og þá gat spádómurinn hafist.

Ég verð að játa að þegar ég leit ofan í bollann þá sá ég nú lítið annað en risa klessu af einhverjum telaufum. En írska konan var ekki í neinum vandræðum með að lesa úr þessu og upphófst langur lestur!spakona_te_i_bolla_1252886.jpg

Mín bíður ekkert nema tómur lúxus. Allt árið 2015 verður lúxus ofan á lúxus. Og peningahrúgur víða. Seinni part ársins þarf ég að hafa fyrir því að peningahrúgurnar skili sér en fram að því gerist þetta víst ósjálfrátt (ég bíð spennt, jólavísað og allt það!). Ef ég gæti þess að þakka fyrir allt gott sem gerist, þá margfaldast það daginn eftir og svo koll af kolli. Og það borgar sig að vingast við mig því ég mun víst dreifa gleðinni meðal vina minna, deila þessu af göfuglyndi. Ferðalög framundan, að sjálfsögðu lúxus ferðalög og þar á meðal til eyju. Hún var handviss um að það væri Hawaii, en kannski er það eina eyjan sem henni datt í hug hér nálægt, ekki vitandi það að ég væri íslensk og á leið í heimsókn á klakann í sumar. Ég vona þó að þetta með Hawaii verði að veruleika, lengi langað þangað. Nú, börnin verða sæl og glöð og á heimilinu verður mikil hamingja sem mun þó ná algjöru hámarki í ágúst þegar sú yngri á afmæli. Eiginmaðurinn verður extra skotinn í mér og svo endaði þetta á því að hún sagði mér að seinni hluta árs munu mér hreinlega ekki verða á mistök, þetta verður sumsé tótal success! 

spakona_les_i_bolla.jpgNú, ár vinkonunnar verður ekkert slor. Nú sér loks fyrir endann á karlmannsleysi hennar því það var heill maður í bollanum hennar, mikill rómans og svo poppaði trúlofunarhringur upp úr telaufunum líka. Og það verður stutt trúlofun lofaði hún okkur. Þannig að mögulega endar árið á brúðkaupi, hver veit! Hún ráðlagði henni líka að eyða tíma með börnunum í kringum sig í æfingarskyni, hún gekk nú ekki svo langt að spá börnunum en það mátti lesa þau milli línanna í spádómnum!

Við vinkonurnar gengum því bjartsýnar út í helgina með þessi fögru fyrirheit í vasanum. Kostaði ekki nema 20 dollara og vorum við sammála um að það væri gjöf en ekki gjald, það er á hreinu. Minn spádómur er þegar byrjaður að rætast enda var helgin tómur lúxus. Dýrðarinnar veitingastaðir, handsnyrting, rölt, verslunarleiðangrar, hlátur, slúður og dúndur félagsskapur. Ég hef passað mig á að þakka fyrir mig þrisvar í lok hvers dags (sú írska ráðlagði mér að gera þetta í heilögum þrenningum) og þetta virðist bara batna með hverjum deginum. Svo vorum við að sjoppa okkur augnskugga í himnaríki förðunarvara, Sephora og þar fékkst endanleg staðfesting á peningahrúgunum sem eru í vændum. spakona_me_bolla.jpgAfgreiðslukonan sem afgreiddi mig hrósaði veskinu mínu hátt og snjallt, grænt Fossil veski og sagði okkur að amma hennar hefði alltaf haldið því fram að græn veski löðuðu til sín peninga. Þar með er þetta með peningahrúgurnar orðið alveg ljóst að mínu mati og fer ég nú um eins og Framsóknarmaður og eyði peningunum áður en þeir láta sjá sig, það er eina leiðin til að gera þetta. Með því sanna ég líka aðra vísu sem ég hef úr heimahúsunum, pabbi hefur lengi haldið því fram að það þurfi að eyða peningum til að búa til peninga. Ég mun því hafa mig alla við í þeim efnum með græna veskið að vopni og írsku tebollaspánna. Hvað gæti mögulega klikkað?

 


Loksins komin með greiningu

68a133b717f8bee418d6b661619c76e3.jpgRifjaðist upp fyrir mér í gær, þessi tilfinning, þegar maður sest aftur inn í skólastofu í upphafi annar, þráin eftir því að kennarinn láti nægja að kynna áfangann og hleypi manni svo snemma út. Að sitja og horfa á klukkuna tifa og fara með hljóða bæn í síðasta tíma dagsins, í von um að ná strætóinum á undan. Svo ég tali nú ekki um föstudagsóeirðina sem kom í beinin og ágerðist eftir því sem leið á skóladaginn, svo mjög að maður var ókennsluhæfur í lok dags og gilti einu hvort það væri skemmtilegast kennari skólans eða þessi með svæfandi röddina. 

Þetta rifjaðist upp fyrir mér því ég settist aftur á skólabekk í gær. Ég skráði mig á námskeið í verkefnastjórnun, Grunnstoðir verkefnastjórnunar heitir kúrsinn og er kenndur af yfirmanni hjá Boeing. Og í ljósi þess að ég reiddi út heilar hundrað þúsund krónur til að sitja þennan 12 vikna kúrs, þá fann ég bara alls ekki fyrir því að langa til að vera sleppt fyrr út úr tíma. Þvert á móti gerði ég þá kröfu að kennarinn nýtti hverja einustu dýrmætu mínútu í að fræða mig, segja mér eitthvað sem ég vissi ekki fyrir. Hann stóð algjörlega undir væntingum. Mögulega ekki ég samt.

Sjáið til. Ég er ekki þessi raunvísindatýpa almennt. Hugvísindin hafa átt hug minn allan fram að þessu. Bókmenntir og tungumál, það er eitthvað sem ég skil og get lært með góðu móti og hef gaman að. Stærðfræði og allt sem hefur verið tengt henni með einhverjum hætti hef ég forðast eftir bestu getu og bara gert það sem ég var neydd til í þeim efnum. Eini stærðfræðikennarinn sem ég hef nokkurn tímann þolað var elsku Jói úr Hagaskóla sem ég var svo heppin að færði sig yfir í Hamrahlíð akkúrat þegar neyðin var stærst, ég féll í fyrstu atrennu í STÆ 103 en í seinna holli kom Jói og bjargaði mér og geðheilsunni. Sem betur fer hafði ég lítið hugleitt möguleikann á því að einhver stærðfræði kynni að leynast innan verkefnastjórnunarinnar, annars hefði ég sennilega hætt við. Nema hvað. Svo vill kennarinn að við kynnum okkur til leiks. Og partur af ferlinu var að fara yfir það sem hann kallar "educational background". Slík upptalning tekur ekki langan tíma hjá undirritaðri. Stúdentspróf og svo langleiðina í BA í frönsku og bókmenntum. En því var ekki að skipta hjá samnemendum mínum. Þau voru öll með mastersgráðu. Þrátt fyrir að líta út fyrir að vera tíu ára. Og ekki bara einhverja mastersgráðu. Nei, öll á sviði vísinda og í fræðum sem ég skil ekki einu sinni um hvað snúast.Þarna var kjarneðlisfræðingur, verkfræðingar af öllum sortum, efnaverkfræðingur og vélaverkfræðingur, umhverfisverkfræðingur og hugbúnaðarverkfræðingur og svo mætti lengi telja. Einhverjir með doktorsgráðu á einu sviði og svo búin með master á enn öðru sviði og áfram tikkuðu mínúturnar og fólk var enn að telja upp sigra sína á sviði menntunar. Jamm og já. Eftir að ég hafði afhjúpað mig gerði elsku kennarinn sér far um að horfa djúpt í augu mér þegar hann talaði um stærðfræði og tók nokkrar mínútur í að útskýra að hann myndi tala mikið um tölur en að við sem hefðum ekki raunvísindabakgrunn (lesist, þú þarna frönskutýpa, því ég var sú eina sem hafði ekki lifað í tölum allt mitt líf) þyrftum ekki að örvænta, þetta myndi fara vel á endanum. 

Vandræðagangur minn jókst bara þegar hann fór að tala um kjarnorkusprengjuna, gerð kjarnorkusprengjunnar hér í USA var nefninlega fyrsta verkefnið sem var rekið með nútíma verkefnastjórnun (sko, ég lærði eitthvað í gær!) og spyr út í bekkinn hvað við höldum að hafi verið sprengdar margar kjarnorkusprengjur. Og hvað segir litli Íslendingurinn? Jú 0 sprengjur var það sem ég sló fram og lét þá algjörlega ótalið að minnast á þessar tvær þarna sem voru sprengdar í Japan, jú með stærri viðburðum heimssögunnar, en greinilega ekki nógu merkilegt til að ég hefði það á hreinu, onei. Hann vísaði kenningu minni góðlátlega frá og sýndi alveg stórmerkilegt myndband þar sem kom í ljós að það hafa verið sprengdar yfir 2.000 svona sprengjur. Ég reyndi að breiða yfir vanþekkingu  mína með vandræðalegum brandara um að ég hafi sko verið að meina 0 sprengjur á Íslandi. Enginn lét blekkjast!

Ég mun því sitja yfir bókunum næstu daga, vikur og mánuði. Ég get, skal og ætla. Í næstu viku koma forstjórar fyrirtækja og kynna verkefni sem okkur standa til boða að taka sem lokaverkefni í áfanganum. Við eigum að vera í tveggja manna hópum og það er hægt að vinna til verðlauna auk þess sem við fáum þarna tækifæri til að sjarmera fólk sem við hefðum annars engan aðgang að. Hvort haldið þið að þekking mín á íslenskum bókmenntum eða franskri málfræði muni gagnast betur? Best að nota bæði, er það ekki? Og hverjar teljið þið að séu líkurnar á að einhver vilji vera í hópi með týpunni sem virðist hafa lifað í helli allt sitt líf og algjörlega misst af ekki einni kjarnorkusprengju eða tveimur heldur yfir tvöþúsund slíkum kvikyndum?

Ég kom heim og ætlaði að slá um mig með fróðleik um kjarnorkusprengjur og spurði eiginmanninn lymskulega hvort hann renndi í grun um hversu margar slíkar hefðu verið sprengdar. Ég var nokkuð viss um að hann myndi ekki klikka á þessu með Nagasaki og Hiroshima en taldi öruggt að hann myndi ekki giska á neitt nálægt réttri tölu. Haldiði ekki að hann segi strax að þær hljóti að vera yfir tvö þúsund. Þá segi ég honum frá þessi stórmerkilega myndbandi sem ég hafi verið að uppgötva og hann sagði mér þá auðvitað að hann hefði séð það fyrir einum tveimur árum síðan allavegana. Hvar hef ég verið? Og afhverju er enginn að skrifa um þessar kjarnorkusprengingar í íslenskum bókmenntum?

Nema hvað. Eiginmaðurinn var fljótur að greina vanmáttarkennd mína sem ég upplifi gjarnan í kringum fólk, að finnast allir vera klárari en ég, sama hvort það sé með mastersgráðu eða ekki. Það sem hrjáir mig samkvæmt Wikipediu er kallað "The impostor syndrome" og þýðir það að viðkomandi á erfitt með eða getur einfaldlega ekki sæst við árangur sinn í lífinu. Þrátt fyrir allar sannanir þess að maður sé bæði hæfur og hæfileikaríkur á einhverju sviði þá eru þeir sem haldnir eru þessu tiltekna heilkenni sannfærðir um að þeir séu raunverulega að villa á sér heimildir eða eigi ekki árangurinn skilinn. Sannanir um hið gagnstæða er afskrifað sem heppni, tímasetning eða vegna þess að aðrir hafi látið blekkjast. Viðkomandi er jafnframt sannfærður um að allir aðrir séu klárari og betur starfi sínu vaxnir.

Haldið þið að það sé. Nú er ég bara komin með greiningu á því sem hrjáir mig og lífið getur bara verið upp á við eftir það! Lyfjarisinn Ameríka hlýtur að eiga eins og eina bláa pillu sem getur komið mér yfir þetta! Farin út í apótek.

P.s. Mér til réttlætingar vil ég koma því á framfæri að ég vissi af þessum tveimur kjarnorkusprengjum sem sprengdar voru í stríði og hafði heyrt af einhverjum fleirum, en í fljótfærni og uppnáminu yfir  menntunarstigi mínu þá bara var eins og heilinn á mér starfaði ekki sem skyldi...


Þá árið er liðið í aldanna skaut!

aramot.jpgJæja. 2014 liðið og mesti æsingurinn yfir Skaupinu að líða hjá. Eiginmaðurinn komst í fréttamiðla fyrir að tísta um skaupið á Kaliforníu tíma. Enn sannast sú fornkveðna vísa um að fjarlægðin geri fjöllin blá. Hér horfðum við á skaupið, 9 Íslendingar á breiðu aldursbili, yngsti þriggja og elsti 62. Og við hlógum. Oft og mörgum sinnum og stundum lengi. Það var bara svo margt gott í því og allt satt. Reykjavíkurdætur gáfu þessu gott start og leikararnir voru margir og góðir. Ég á mér enga uppáhalds senu, þær voru margar svo góðar. Teiknimyndasenan var afbragð, "Þetta reddast krakkar", ungu menntuðu hjónin á leið í áburðarverksmiðjuna hans Simma, Simmi í viðtalinu hjá Gísla Marteini, Spilaborgarsenan öll var æðisleg og svo mætti lengi telja. Við virðumst þó vera í minnihluta, almennt virðist fólk ekki hafa skemmt sér yfir þessu eins og við. En þannig á það að vera með skaupið, skiptar skoðanir. En ófaglegt og ósmekklegt fannst mér að sjá ráðherra og þingmenn hafa skoðun á skaupinu og tengja það við kostnað þess að gera þáttinn. Sorrí, en það hljómar bara eins og þau séu ógeðslega tapsár. Hvað varð um að taka gagnrýninni með reisn eins og tíðkaðist hér áður fyrr með skaupið?

Á síðasta ári strengdi ég fá áramótaheit, ég man bara eftir einu. Það var lestraráskorun til sjálfrar mín. Ég hef sko alltaf verið hrifin af slíkum áskorunum. Þegar ég var 12 ára, í Melaskóla, komst ég í blöðin fyrir að sigra slíka keppni. Þá hafði ég lesið langmest allra nemenda í bekknum mínum eða 75 bækur á 6 mánuðum, einar 12 þúsund blaðsíður. Þegar blaðamann bar að garði sat ég við lestur og hvað var ég að lesa? 12 ára? Jú, ævisögu Hófíar fegurðardrottningar. Good times! Allavegana. Í ár ætlaði ég mér að lesa 65 bækur og stefnan var að auka lestur ljóðabóka. Að auka ljóðabókalestur var svo sem auðvelt í sjálfu sér, árið 2013 las ég ekki eina slíka en í ár las ég einar 4-5. En mér reyndist erfitt að lesa 65 bækur og síðustu dagana fyrir áramót mátti ég hafa mig alla við, svo mjög að á Gamlárskvöld klukkan 22 sat ég inni í herbergi og las Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á höfuðið á henni og fleiri barnabækur, bara til að ná settu marki. Það var bara ekki hægt að gefast upp fyrir þessu! Á einu ári tókst mér að lesa færri bækur en 12 ára ég las á hálfu ári en mér til réttlætingar munar þó rúmum 6 þúsund blaðsíðum því á þessu ári las ég yfir 18 þúsund blaðsíður. Sem er bara alveg ágætt.

Í ár verða áramótaheit líka. Ég er samt löngu hætt að nenna að tala um kíló, sykur og hollustu í áramótaheitum, það er svo klént eitthvað. En ég vil gjarnan halda áfram með lestraráskoranir og var bent á eina góða (sjá mynd).

lestraraskoun.jpg1. Lesa bækur, margar og góðar og haka við á listanum. Bók frá fæðingarári mínu, bók með töfrum, bók byggð á sjónvarpsseríu og fleira. Spennandi lestrarár framundan!

2. Safna peningum. Sko. Ég veit að græddur er geymdur eyrir og allt það en við hjónin erum samt arfaslök í öllu sem heitir sparnaður. Ég er of föst í því að lífið sé til að lifa því og krónurnar hverfa því jafn hratt og þær koma inn. En nú skal tekið á því. Fann þessa fínu söfnunaráskorun fyrir árið og ætla að prófa hana!

3. Heimsækja stað sem ég hef ekki komið á áður. Þetta er árlegt þema hjá mér og gengur vel. Í ár heimsótti ég t.d. Napa dal, þangað hafði ég aldrei komið, nú og San Diego og svo hingað og þangað um Los Angeles og þar er margt enn óséð. Verður spennandi að sjá hvert ég rata á þessu ári.

4. Minnka viðveru á Facebook. Ég elska Facebook, ekki misskilja mig. En við eyðum of miklum tíma saman.

5. Ná 20 þúsund skrefa degi í Fitbitinn minn, hef lengst komið í 18 þúsund. Nú skal þetta gerast! Ef David Sedaris getur það, þá hlýt ég að geta það líka.

6. Læra eitthvað nýtt. Bæði eitthvað spennandi og eitthvað praktískt.

7. Elda út fyrir þægindarammann og fara á matreiðslunámskeið. Gæti dekkað lið nr 6 líka þá!

8. Fara í fleiri jógatíma. Reyna að komast þar yfir óþægindi mín í kringum fólk sem kyrjar. En alls ekki byrja að kyrja sjálf, það er bara ekki töff, sorrí!

9. Sjá U2 á tónleikum. Og muna að ef Bono kallar mig  upp á svið til að syngja "One" með sér, þá bara að stökkva!

10. Segja oftar já en nei. Sem foreldri er eins og "nei" sé nýja mantran mín. Svo leiðinlegt að segja stanslaust nei. Skítt með það þó þær verði þá óttarlegar frekjudósir því þær fá allt sem þær vilja, ég verð þó allavegana jákvæðasta manneskja í heimi!!!

 


Gleðileg jól frá Griswold fjölskyldunni

jolajola.jpg

Ég vaknaði í smá jólafýlu. Það er ekki vegna skorts á jólastemmningu. Nei, hér er allt morandi í stemmara. Smákökusortirnar orðnar einar sjö, jólatréð í stofunni stendur og stjörnuna glampar á,jólaísinn í frystinum, frómasinn í ísskápnum (allur í kekkjum, smá Griswold stund í eldhúsinu í gær), gjafir innpakkaðar, í hverju horni og allt eins og það á að vera. Eða næstum því. Fýlan stafar af því að nú, í annað sinn um ævina, held ég jól án mömmu og pabba. Ég er 34 ára og bara einu sinni áður verið foreldralaus um jólin. Það voru jólin 2006, mamma, pabbi og litli bróðir ákváðu að verja jólum í New York og þrátt fyrir grátur og gnístan tanna þá gáfu þau sig ekki og flugu á brott. Kærastinn reddaði málunum. Sem ég sat meyr yfir jólagjöfunum þá dró hann fram hring og bað mín. Búmm. Jólin sem áður höfðu dramatískan stimpil urðu að ævintýrastund. En það er ekki séns að hann nái að græja þessi jól með sama hætti. Við erum löngu hætt að vera trúlofuð og búin að gifta okkur. Þannig að framundan eru jól án mömmu og pabba.

En það er ekki það versta. Ég missi líka af uppáhalds jólastundinni minni. Hún er ekki tengd gjöfum eða stórveislum. Upp úr hádegi á aðfangadag hrúgumst við öll, mamma, pabbi, stóri bróðir, ég og litli bróðir inn í einn bíl. Kirkjugarðaleiðangur. Heimsækjum þá sem við söknum. Ömmuna og afana þrjá og fleiri sem við söknum. Þetta er fyrir mér hin helga stund jólanna! Það eru fastir liðir: Litli bróðir er neyddur af eldri systkinum til að sitja í miðjunni. Hann gafst upp fyrir löngu að tuða yfir því. Stóri bróðir prumpar einum fúlum. Einum virkilega rotnum. Við opnum alla glugga og gerum grín að honum alla leið upp í Grafarvog. Pabbi og stóri bróðir þrátta um bestu leiðina þar sem er minnst umferð. Mamma jesúsar sig. Stóri bróðir tuðar yfir því að hans tillaga að bestu leiðinni hafi ekki verið þegin og segir svo "ég sagði ykkur það" þegar við sitjum föst einhversstaðar. Mamma stressar sig á jólaverkunum sem er ólokið. Ég klíp litla bróður. Stóri bróðir klípur litla bróður. Hann reynir að klípa okkur til baka. Við rífumst yfir því að það megi ekki keyra að leiðunum í Fossvogi. Ég kem með tillögur að afsökunum fyrir því að fá að keyra (aðeins fyrir háaldraða og fatlaða), en enginn hlustar á mig svo ég þusa alla leiðina niður að leiði afa míns. Ef það er snjór, þá hendum við snjóboltum hvert í annað. Það er alltaf rok, svo það tekur heila eilífð að kveikja á kertunum svo við stöndum þétt í hnapp utan um þann sem kveikir í von um heimagert skjól. Og svona heldur þetta áfram. Steininn tekur úr þegar mamma tilkynnir óvænt gjafastopp. Stóri bróðir þusar. Ég pressa á pabba að viðhalda gömlu góðu hefðina sem við höfðum í gjafarúnti Aðfangadags, að koma við á Bæjarins bestu og hita mallann upp  með einni með öllu. Þá fær stóri bróðir flog. Hann hefur nefninlega tekið upp þann fáránlega sið að halda tvö boð á Aðfangadag og á von á einhverju liði í osta og pulsur og vill frekar maula það en pullu með okkur. Við gólum á hann. Ég vinn og fæ pulluna mína. Stóri bróðir sýnir andúð sína með því að vera sá eini sem fær sér ekki pulsu.Og loks, þegar allir hafa fengið útrás, litli bró er kominn með tonn af marblettum og pabbi er búinn að hóta að keyra með okkur út í skurð (þó án sígarettunnar sem var fastur liður í bílferðum fortíðarinnar, áður en fólk fattaði þetta með óbeinu reykingarnar) kem ég heim, tilbúin í jólabaðið.

national-lampoons-217x325.jpgOg í ár þá keyra þau þennan rúnt án mín. Litli bróðir fær gluggasæti og ætli það verði nokkuð úr þessari einu með öllu án frekjuskjóðunnar mín?

Tengdó eru reyndar í heimsókn. Spurning hvort ég geti troðið þeim í bílinn og tekið smá jólaleikrit. Verst hvað mágur minn tekur illa við klipi, ekki í sömu þjálfun og litli bróðir.

Óska ykkur öllum gleðilegra jóla. Takk fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða.

Jólakveðja frá Griswold.


Jól á Rodeo Drive

img_5534.jpgÉg er að tryllast úr jólastemmningu. Ég hef alltaf verið jólabarn í hjarta mínu en það var aldrei tími til að detta á almennilegt jólafyllerí vegna jólabókaflóðsins. Ég hangi á vefmiðlum og les ritdóma og slefa af afbrýðisemi yfir facebook færslum og myndum sem tengjast flóðinu. Þess á milli reyni ég að pumpa pabba um bóksöluna þegar hringt er milli heimsálfa. En það er bara ekki eins. Þannig að. Í staðinn ætla ég að taka Clark Griswold á þetta. Stressa mig svolítið upp yfir jólunum, fara alla leið með þetta!

Í ár erum við að tala um ofurjól. Og líkt og Griswold á ég von á tengdó í jólin og svo mömmu og pabba í gamlárs. Það er því aldeilis ástæða til að setja í fimmta gír!

Ég er byrjuð að baka smákökur og piparkökudeigið er í kæli. Ég er búin að kaupa föndurdót og mun þetta líta út eins og barnaþrælkunarverksmiðja í desember þar sem dæturnar munu sitja við og föndra jóladót, jólakort, perla jólaskraut og gera jólagjafir. Jebb. Heimagerðar jólagjafir eru algjörlega málið. Ég er byrjuð að skreyta og ligg á netinu að skoða jólaskraut og óska þess að ég ynni í lottó eða eiginmaðurinn fengi veglegan jólabónus svo ég gæti gengið með þráhyggjuna skrefinu lengra!

10151857_10152925890202990_7261498319142513611_n_1250494.jpgDæturnar komnar með aðventudagatal og eiginmaðurinn líka. Splæsti rándýru Johan Bulow dagatali á hann (ok, ég keypti það handa mér en sagði honum með rómantískri röddu að ég hefði keypt þetta handa honum). Og svo erum við svo heppin hérna í Ameríkunni að nú höldum við jól með tvennum hætti. Fyrst, hin hefðbundnu íslensku jól. Skyrgámur, Stúfur, Stekkjastaur og allir hinir sönnuðu sig með prýði í fyrra og rötuðu hingað alla leið með skógjafir og ekki á ég von á að raunin verði önnur í ár. Og klukkan 6 á aðfangadag munum við setjast niður og borða jólamatinn og opna svo loks jólagjafirnar. En svo fáum við bónus jól að morgni 25. desember því ég er viss um að herra Santa Claus viti nú af veru okkar hér í Kaliforníu og því munum við samviskusamlega hengja upp jólasokkanna og ég yrði hissa ef við myndum ekki fá glaðning frá honum líka. Ég þarf fyrst að finna út úr því hvernig maður föndrar svona jólasokka, er það ekki annars það sem maður gerir? Læt ekki á mig fá að ég var eina barnið sem féll í handavinnu í Hagaskóla og held ótrauð áfram með hugmyndir mínar um eigin handlagni.

Stelpurnar sitja nú og horfa á jólamyndir, við höfum nú þegar horft á Home Alone 1 og 2 og Miracle on 34th Street. Elf, Home Alone 3 (ég veit, hún er verst), Grinch og ýmislegt fleira eftir á listanum fyrir bíókvöldin og hér mun ekkert óma nema jólalög, oftast væntanlega Jólahjól því það er eins og við vitum langbesta jólalagið.

 

1970356_10152917812762990_5075935553588704473_n.jpgSvo eru það jólaviðburðirnir. Dagatalið okkar er orðið yfirfullt af slíku. Við reyndar misstum af einum risa viðburði í gær vegna gubbupestar sem herjaði á alla fjölskyldumeðlimi (kom eins og kölluð samt, svaka grennandi og nú hlýt ég að komast í kjólinn fyrir jólin!) en ég er búin að finna annan viðburð til að njóta í dag. Á RODEO drive. Í alvöru, það getur varla orðið betra. Þar verða bæði Jóli og Jóla og gervisnjór og jólaskraut og mögulega, eftir myrkur get ég farið í peysu og sötrað heitt kakó án þess að svitna óhóflega. Svo á morgun er það hin fræga Hollywood Christmas Parade. Um næstu helgi keyrum við upp í fjöll og eyðum helgi í kaldara loftslagi þar sem búið er að lofa snjó, hvort sem hann er ekta eða gervi, skiptir engu, svo er það risa jólapartýið sem við erum búin að blása til, jólaskreytt skip á kanölum og ég veit ekki hvað og hvað.

Best að fara að kveikja á aðventukrönsunum. Já, þið heyrðuð rétt. Fleirtala. Einn er bara fyrir aumingja, tveir eru fyrir jólastjörnur eins og mig!


Cougar Town

IMG_5304Ég hef verið dyggur áhorfandi sjónvarpsþátta síðan ég var krakki. Fyrstur upp í hugann er Derrick hinn þýski, svo var það hin fagra Angela í Murder She Wrote, Hasselhoffinn í Baywatch og loks yndislegu Vinirnir sem fylgdu mér lengi og gera raunar enn því ég horfi reglulega á allar 10 seríurnar. 

Og í síðustu viku var ég svo heppin að standa í sama herbergi og ein af Vinum mínum og sjá hvernig sjónvarpsþáttur verður til. Yndisleg kona sem starfaði eitt sinn við nýjustu þáttaröð Courtney Cox gerðist fylgdarkona mín einn dag og lóðsaði mig um kvikmyndasettið þar sem þátturinn er tekinn upp. Þátturinn heitir Cougar Town, Courtney leikur þar aðalhlutverið og með henni eru t.d. Christa Miller (Gerði garðinn frægan sem kaldhæðna eiginkona Dr. Cox í Scrubs), Busy Phillips (lék til dæmis Audrey í Dawson Creak)og hinn myndarlegi Josh Hopkins (hann hefur komið víða við, Private Practice, Brothers and Sisters, Cold Case, Ally McBeal og svo mætti telja endalaust áfram). Ég hef nú ekki horft á allar seríurnar, horfði á fyrstu tvær en nú eru þær orðnar fimm og verið að taka upp þá sjöttu og síðustu.

IMG_5305Ég hef aldrei áður stigið á svona sett. Ég var með hjartað í buxunum af spenningi þegar við gengum inn í Culver City Studio þar sem þátturinn er tekinn upp. Þetta er eitt sögufrægasta stúdíóð hér í borg, King Kong var tekinn þarna upp og Galdrakarlinn í Oz en Cougar Town er sennilega það stærsta sem er tekið upp þar í dag. Það vantar ekki sjarmann og leikarar ferðast þarna um á fögrum fákum (sjá mynd) og sáum við einmitt hjól Courtney og Busy sem voru auðvitað merkt þeim.

Vinkonan byrjaði á að kynna mig fyrir fyrrum samstarfsmönnum hennar, hún starfaði sem Art Director. Ég hitti allt liðið í art deildinni, fólk sem sér um að láta drauma aðalhönnuðarins verða að veruleika og sjá til þess að allt settið líti út eins og það á að líta út. Ég hitti mann sem er Transport Director, guð má vita hvað það felur í sér, ætli hann hafi ekki mest að gera þegar að þeir þurfa að fara á flakk í tökum, það gerist stundum. Mér fannst stórmerkilegt að sjá hvað það starfsmennirnir sátu þröngt, enginn glæsibragur yfir þessu og þarna hrósuðu þau happi yfir því að hafa glugga, það þykir víst eins flott og það gerist. Svo var labbað með mig inn á sett, inn á barinn þar sem Grayson (Josh) vinnur sem þennan tiltekna dag var dekkaður upp fyrir PROM þáttinn þeirra. Svo löbbuðum við fyrir horn og vorum þar komin í "blue room" þar sem leikararnir sitja milli sena (ef þeir eru ekki í herberginu sínu), sminkurnar bíða milli takna og allur herinn sem kemur að upptökunni valsar í gegn. Þarna situr líka leikstjórinn þegar er verið að taka upp og horfir á einn fjögurra skjáa. Leikstjórinn þennan daginn var enginn annar en Josh, að leikstýra sínum fyrsta þætti, Courtney hefur leikstýrt þeim ófáum. Hann var því allt í öllu, skiptist á að leika og leikstýra.


IMG_5312Ég tyllti mér aðeins niður í Blue room og horfði á skjáina. Á þeim sá ég undirbúning fyrir næsta tökuatriði þar sem fjórir leikaranna standa saman og horfa á eitthvað gerast. Leikararnir sjálfir hanga ekki inni á settinu meðan allt er undirbúið heldur hefur hver leikari sinn eigin uppfyllingar mann. Hæfniskröfurnar eru tvær geri ég ráð fyrir. Þú þarft að vera í sömu hæð og leikarinn sem þú fyllir inn í fyrir og svo þarftu að vera sérlega góður í að standa kyrr. Svo stendurðu þarna meðan allt er mælt, hvar hinn eiginlegi leikari eigi að standa, hvernig stilla eigi ljósin svo allt komi sem best út og svo mætti lengi telja. Undirbúningurinn virðist endalaus og þessi 140 manna her sem starfar við gerð þáttanna hleypur um allt. Fyrir nýgræðing virðist þetta allt ósköp stefnulaust en í raun hefur hver mikilvægu hlutverki að gegna. Úr Blue Room héldum við svo yfir í eldhús Jules (Courtney) sem leikur stórt hlutverk í þáttunum og það var frekar fyndið að standa þarna inni í því miðju eins og ekkert væri. Á leið minni yfir í næsta hús þar sem eldhús Ellie rekst ég á leikstjórann og leikarann, Josh, sem sat og fór yfir handritið fyrir næstu senu. Ég réðst auðvitað á manninn, kynnti mig óðmála og lét smella af mynd af mér með honum. Hann var raunar eini leikarinn sem gaf færi á sér, ég sá Courtney bara útundan mér, það var brjálað að gera þarna þennan dag og hún virtist eiga nóg með sitt. Ég fékk líka að hitta smiðina sem byggja frá grunni allt sem við sjáum á skjánnum og hitta manninn með búningana. Búningaherbergið var eins og fjársjóðskista þar sem slárnar eru flokkaðar eftir karakterum og hægt að finna allt frá nærfötum til útskriftarkjóla. Á slá Courtney hengu til að mynda einir 6 brjóstahaldarar sem mér fannst stórmerkilegt. Ég veit að Courtney  þarf að vera í brjóstahaldara og kannski þarf persónan Jules einn líka, en að þurfa heila 6 haldara sem hanga svo þarna frammi fyrir augum allra, hver vill láta viðra undirföt sín úti á gangi þar sem 140 manns ganga hjá á degi hverjum. Skálarstærð hennar er allavegana ekkert leyndarmál!

Eins spennt og ég var í upphafi dags fyrir því að hitta Fröken Cox þá minnkaði áhugi minn á því eftir því sem á leið á daginn en á sama tíma jókst bara áhugi minn á því að fylgjast með framleiðsluferlinu! Orkan var engri lík þrátt fyrir að fólk vinni frá 12,5 tímum og upp úr dag hvern og telst það stuttur dagur fyrir flesta í þessum iðnaði. Flækjustigin eru endalaus en fagfólk á alla kanta. Ég var ekki ein um að vera upprifin yfir þessu öllu saman, í bláa herberginu hitti ég ungan strák sem var gestaleikari í þessum þætti og hann virtist frekar upprifinn yfir þessu öllu saman, nánast stökk í fang Courtney og lét smella af sér mynd með henni, áður en þau fóru að taka upp senu saman. Mamma hans sat þolinmóð allan daginn, leikarar undir lögaldri verða að hafa fylgdarmann öllum stundum í kvikmyndaverunum. 

Skemmtilegast við daginn var að sitja eins og fluga á vegg innan um starfsfólkið og hlusta á það slúðra um hitt og þetta. Til dæmis að karakterinn Bobby, fyrrum eiginmaður Jules, var skrifaður snarlega út úr þáttunum á síðasta ári. Hann og Courtney voru að deita sem endaði víst með ósköpum. Óheppilegt þar sem hún er yfirframleiðandi þáttanna, áhættusamt ástarsamband fyrir hann! Mest töluðu þau þó um það sem tæki við þegar að þátturinn kláraðist. Margir úr teyminu hafa verið að vinna saman í fjölda ára, fyrst við þættina Scrubs og svo við Cougar Town og enn vita þau ekki hvað verður þegar þessi sería klárast. Harkið í þessum bransa er nefninlega e20141023_134448ndalaust og enginn veit hvað tekur við þegar einu verkefni lýkur.

Ég var samt mest hissa á því að Josh skildi ekki biðja um símanúmerið mitt, þið sjáið hvað það fer vel á með okkur. Hlýtur að hafa gleymst í önnum dagsins. Ætli hann gangi nú á milli samstarfsfélaga sinna og spyrji um mig? Ég ímynda mér það allavegana. Að skrítna íslenska stelpan sem réðst á hann þar sem hann sat í sakleysi sínu vitji hans í draumum hans. (Og plís ekki láta það vera í martröðunum hans?!?) Josh, ef þig vantar einhvern tímann aðstoðarleikstjóra, þá ekki hika við að hringja!

Þegar að klukkan hringdi í hádegismat, klukkan hálffjögur (þá voru þau búin að vinna sleitulaust frá 9) þá lét ég gott heita. Framundan hjá starfsfólkinu var klukkustundar framleiðslufundur áður en dagurinn gat haldið áfram. Sem betur fer er boðið upp á mat á fundinum og fyrir utan settið stóð kaffivagn og ísbíll, tilbúinn til að þjónusta þá sem vildu. Ég gekk út úr kvikmyndaverinu. Þrá mín eftir að vera leikari að engu orðin en þeim mun meiri áhugi á að koma að framleiðsluferlinu. Verst að það hentar ákaflega illa barnafólki að taka 13 tíma dagana... ætli þeir séu með barnfóstrur þarna á settinu? Ég hitti þær allavegana ekki.

 


Grasekkjan

eb6acd1f2e14966dde9182569979c1cd.jpgEiginmaðurinn þurfti að bregða sér af bæ í síðustu viku. Ég var grasekkja með börn og buru í 6 nætur. Tilstandið svo ógurlegt við  þetta að mamma þurfti að fljúga alla leið frá Íslandi til að passa mig og dæturnar.

Það skal tekið fram að þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég er í þessu hlutverki en það var langt síðan síðast. Næstum ár. Og ég var algjörlega búin að gleyma vanköntum mínum, frekar óþægilegt að vera minnt svona rækilega á það. Það eru nefninlega ákveðnir hlutir sem ég ákvað í mínu hjónalífi að læra ekki/gera ekki. Sem getur komið sér illa þegar menn bregða sér af bæ og skilja mig eftir á eigin vegum. Hér eru dæmi um hluti sem ég harðneita að gera:

1. Taka bensín. Í alvöru, er til eitthvað leiðinlegra en að taka bensín?

2. Ljósaperur. Af hverju að hætta á raflost þegar ég get fórnað eiginmanninum á altari rafmagnsins.

3. Kattasandurinn. Segir sig sjálft.

4. Peningamál. Hef ekki aðgang að heimabankanum okkar vegna þess að ég nenni því ekki. Sagði eiginmanninum að ég myndi bara eyða þangað til að hann/bankinn settu stopp á mig. 

5. Grilla. Ég kann ekki að kveikja á grillinu. Sem hefði ekki komið að sök á Íslandi í október en hér hefði ég getað grillað hverja stórsteikina á fætur annarri ef ég kynni á gripinn.

6. Taka heita hluti út úr bökunarofninum. Vísa í sömu ástæðu og með ljósaperurnar, af hverju að brenna mig þegar aðrir möguleikar eru í stöðunni. Mér til réttlætingar þá er ég klunni. Og eiginmaðurinn er það ekki. Hann er með svo stöðuga hendi að hann gæti verið skurðlæknir.

7. Tæknihlutir, internet, tölvur o.fl. Ef þetta virkar ekki þá arga ég af pirringi út í eiginmanninn. En ég veit ekki hvernig ég kveiki eða slekk á þessu drasli og ef eitthvað bilar, þá er ég í vondum.

Þegar nálgast brottför hjá ástinni þá rifjast þetta upp fyrir mér, vankantar mínir, og ég fyllist kvíða. Ekki bara fyrir dögunum sem hann er í burtu og ég þarf að taka á honum stóra mínum heldur átta ég mig á því að ef eitthvað hræðilegt kæmi fyrir og hann myndi tefjast, nú eða guð forði okkur bara ekki koma til baka, þá vandast málin heldur mikið. Sambandslaus við umheiminn, með brunasár og úfið hár eftir raflost myndi ég þurfa að tæma kattasandinn. Og ekki kæmist ég neitt á bensínlausum bíl.

1328737923281_6129824.pngSvo hélt þessi elska úr landi og allt þetta sem ég óttaðist mest plagaði mig minnst. Ormarnir hinsvegar tóku upp á því að vera óalandi og óferjandi allan tímann á meðan. Reyndust óhuggandi af söknuði eftir pabbanum á krítískum stundum og svo hamingjutrylltar þess á milli að þær gátu ómögulega sofnað þegar að háttatímanum kom. Í nótt tók svo steininn úr. Upp úr þrjú vaknaði ég við að yngra afkvæmið hafði pissað í rúmið mitt. Meðan ég reyndi að henda þurru laki á aftur kom eldra afkvæmið hlaupandi og tróð sér upp í rúmið einnig. Þá vaknaði kötturinn til lífsins, mætti á svæðið í miklum drápsham og tók til við að drepa tær af miklum móð. Hann hafði nýlokið við að gera stykki sín í kassann og kúkalyktin af honum var kæfandi (hann á svona yfirbyggt klósetthús). Þetta var um þrjú leytið í nótt. Klukkan sex í  morgun hafði mér loks tekist að svæfa börn og kött aftur en náði sjálf ekki nema stuttri kríu áður en klukkan rak mig af stað. Kemst ég þá ekki að því að nýju rúmfötin frá því um nóttina voru öll út í kattakúk. Hann hafði þá haft með sér eina væna klessu úr kassanum og klínt í allt rúmið svo þarna sváfum við, með þornað hland á okkur því ég nennti ómögulega að sturta liðið um miðja nótt og umvafin kattaskít. Morgunverkin voru því að sturta misþreytta orma og þvo fleiri þvottavélar en ég kæri mig um að ræða.

Huggun harmi gegn að eftir að ég var búin að koma dætrunum í skólann keyrði ég á bensíngufunum einum saman (nei, ég tek ekki bensín!) út á völl og tók á móti ástinni með stirðnað bros á vör, tilbúin með uppsöfnuð umkvörtunarefni vikunnar á vörunum.

Eins gott það sé langt í að hann bregði sér aftur af bæ!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband