Tvífari óskast...

Unknown

Úff. Ég er á barmi taugaáfalls. Mig dreymir um brúna pappírspoka til að anda ofan í. Þessi skemmtilegi áfangi sem ég valdi mér í skólanum, eitthvað sem átti að vera hressandi og mannbætandi fyrir mig hefur breyst í hreina og klára martröð. Fyrir þá sem ekki muna um hvaða tíma ræðir má lesa nánar um það hér.

Það er stöðug krafa á að við séum að deila hinu og þessu í bekknum, lesa upp úr texta eftir okkur fyrir samnemendur og vinna texta áfram sameiginlega með hugmyndum og ráðum hvert frá öðru. Í síðustu viku gat ég ómögulega fengið mig til að lesa upp það sem ég hafði skrifað heima. Á meðan börðust hinir um athyglina, óðmála og æst yfir þeirri hamingju sem þau upplifðu yfir þessu tækifæri til að hafa rödd og einhverja til að hlusta á. Tíminn mjakaðist áfram og ég sá að það myndi að endingu koma að mér sama hvers mikið ég óskaði þess að sleppa og að bjallan myndi ekki hringja í tæka tíð til að bjarga mér. Þess utan er bévískur kennarinn sérfræðingur í að teygja lopann og ef honum finnst hann þurfa þá heldur hann okkur hálftíma eða lengur eftir að tímanum lýkur. Hvað gerir Sif þá? Jú. Hún stendur snögglega upp og yfirgefur tímann hljóðlega án þess að nokkur taki eftir. Eða, það var allavegana planið. Þar til kennarinn sá hvað ég var að reyna og dró athyglina alla að mér að sjálfsögðu og spurði forundrandi hvort ég væri að fara, ég hefði átt að láta hann vita að ég þyrfti að fara snemma því þá hefði hann byrjað á því að láta mig deila. Ég muldra eitthvað rauðleit ofan í bringuna á mér og hleyp út með loforði um tölvupóst sem viku seinna hefur enn ekki verið sendur.

images

Í millitíðinni fá athyglissjúkir samnemendur mínir frábæra hugmynd og barst mér tilkynning um hana í tölvupósti frá kennaranum. Þeir vilja halda sýningu í lokin á þessu öllu saman. Upplestrarhátíð og bjóða á hana vinum og vandamönnum. Lesa upp textann sinn í áheyrn allra. Einmitt. Af hverju var ég ekki undirbúin undir þetta í landi tækifæranna þar sem allir eru að reyna að meika það? Nema hvað. Svo er dæminu stillt upp þannig auðvitað að ég geti sagt mína skoðun á þessu þar sem ég var ekki á svæðinu þegar málið var rætt og ef ég vilji þetta ekki þá sé auðvitað hægt að hætta við. Eru þau að grínast? Á ég að vera Grýla og stela af þeim jólunum?

Það eina sem kemur í veg fyrir að ég skrái mig úr herlegheitunum er vissan um að kennarinn muni gera sér það að umtalsefni í tímanum á eftir, taugaveiklaða íslenska stelpan sem var of góð með sig til að tala við samnemendur sína um innstu drauma og þrár. Afhverju held ég að hann geri það? Af því að hann eyddi hálftíma í öðrum tímanum að ræða um nemanda sem af einhverjum ástæðum vildi ekki mæta oftar. 

Stundum vildi ég óska þess að ég gæti grafið höfuðið í sandinn. Ef ekki það, þá fengið tímavél að láni og farið aftur og slegið mig utan undir þegar ég fékk þessa frábæru hugmynd um að skrá mig í þennan áfanga.

En úr því það er ekki hægt, þá er fátt annað að gera en að anda ofan í pappírspokann og búa mér til hliðarsjálf sem ég sendi svo í tíma. Og mögulega hugleiða ritstuld, lesa efni eftir einhvern annan á þessu upplestrarkvöldi? Ég ætti kannski að auglýsa eftir svokölluðum Ghost writer nú eða svona tvífara, eins og stjörnurnar eiga og geta notað í áhættuatriðum. Ég gæti þá sent tvífarann minn á upplestrarkvöldið? 


Kattakonan í Los Angeles

10671336_10152816858122990_6735661802914362900_n.jpgLíf mitt er litað köttum. Við áttum ketti frá því ég man eftir mér, tvo raunar, þegar ég fæddist. Ég gleymi aldrei kettinum sem dó úr blómaeitrun eða gamla Kisa sem hafði fylgt foreldrum mínum í árafjöld áður en ég fæddist og svaf svo fallega á rúminu mínu. Einn galli á gjöf Njarðar, hann var með krónískan bronkítis og hnerraði horklessum upp um alla veggi í herberginu mínu. Ég elskaði hann bara meira fyrir vikið.

Svo fæddist nýr fjölskyldumeðlimur. Ég hafði hlakkað til þess að eignast systkini, vantaði systur sem gæti aukið yfirráðasvæði mitt á heimilinu sem ég barðist um við stóra bróður. Ég lét mig dreyma um hvernig við tvær myndum pakka honum saman og halda honum á mottunni.  Draumurinn varð að engu. Af fæðingarstofunni bárust þær fréttir að bróðir væri fæddur. Vonbrigðin algjör. Svo tók steininn úr. Greyið fæddist með kattaofnæmi. Gamli kisi átti að fara til himna og hin kisan, Níní, átti að fá nýtt heimili. Og þá spurði ég eðlilegstu spurningar í heimi. Var ekki frekar hægt að senda bróðirinn á nýtt heimili? Fór þetta ekki eftir því hver var nýjastur inn, fór sá aðili ekki fyrstur út? Nei var svarið og kisurnar fóru. Gæludýraleysið reyndist öllum erfitt, líka litla bróður sem reyndist hinn mesti dýravinur þrátt fyrir ofnæmið. En pabbi þjáðist sennilega mest. Svo mjög raunar að hann gerði tilraunir til að eignast annað gæludýr en kött. Einn daginn kom hann heim með hamsturinn Hreggvið. En Hreggviður vildi bara alls ekki þýðast hann, þrátt fyrir miklar tilraunir. Það eina sem náðist fram þegar pabbi reyndi að kúra með hamsturinn var að hann nagaði gat í öll fínu og dýru ullarteppin hennar mömmu. Og svo rann upp sá dagur þar sem Hreggi litli fékk eistnakrabbamein og endaði dvöl sína í þessum heimi með eistu stærri en hausinn á honum.  Þar með gafst pabbi upp. Hann settist upp í bíl. Bað um kraftaverk alla leiðina upp í Kattholt og kom svo heim með lítinn hnoðra sem malaði stanslaust í 3 daga. Og kraftaverkið fengum við því litli bróðir gat lifað með honum. Í dag er þessi köttur tvítugur, heitir Randver, og við fjölskyldan biðjum þess eins að hann verði eilífur því betri köttur er ekki til.

Kattaástin er fjölskyldunni minni í blóð borin, hún er í genunum eins og bókaútgáfan. Amma og afi voru mikið kattafólk. Eitt af því sem ég man hvað best af því sem afi, Valdimar heitinn í Iðunni, sagði við mig var eftirfarandi: Ekki giftast manni sem er illa við ketti. Ef honum er illa við ketti er á hreinu að þar er á ferðinni vondur maður og með hann hefurðu ekkert að gera.

Sem er ástæða þess að á fyrsta deiti með stráknum sem nú er eiginmaður minn kom einmitt þetta til tals, óheppilegt á fyrsta stefnumóti? Orð eins og að gifting og sameiginlegt kattahald myndu fæla flesta frá en þessi hikaði ekki og sagðist vera mikill kattamaður. Það reyndi fljótt á. Örfáum mánuðum síðan vorum við farin að búa og það fyrsta sem við fengum okkur í búið voru kettirnir Breki og Ríkharður ljónshjarta. 

En ofnæmisdraugurinn lét á sér kræla, verðandi eiginmaðurinn var þá með kattaofnæmi og svo í pottinn búið að ég gat ómögulega skilað honum. Það voru því kettirnir sem þurftu að fara. Breki og Rikki fluttu inn til foreldra minna þegar við fluttum í nýtt húsnæði og heimili mitt varð kattlaust. Það sem bjargaði mér alveg var vinnan því þar hitti ég fyrir Randver minn alla virka daga og átti hann lengst af samastað á mínu skrifborði, lá í bælinu sínu eða það sem honum þótti best, ofan á lyklaborðinu, því þar tryggði hann sér mesta athygli. 

Það reyndist mér því erfitt þegar ég kvaddi Ísland að hugsa til þess að nú yrði ég ekki í daglegum samskiptum við kisur lengur. Þar sem það reynist mér óbærileg tilhugsun þá hóf ég rannsóknir, bæði á ofnæmislyfjum, afnæmingum og svo köttum sem sagðir eru valda minna ofnæmi. Og þá er ég ekki að tala um hárlausu kettina, ég get því miður ekki fellt mig við þá. Lítill vonarneisti kveiknaði. Ég heyrði af síberískum skógarköttum sem sagðir eru innihalda minna af þessu ensími sem veldur ofnæminu. Við keyrðum í klukkustund fyrir 3 vikum síðan inn í Orange County og fórum inn á heimili með 9 slíkum köttum, 6 kettlingum og 3 læðum. Eiginmaðurinn lagðist ofan í kattafeldi, klappaði kisum og gerði sitt besta til að kalla fram viðbrögðin sem venjulega láta ekki á sér standa. Viti menn, ekkert gerðist. Fjölskyldan hélt heim á leið eftir að hafa tryggt sér síðasta kettlinginn úr gotinu og í gær keyrðum við sömu leið aftur með tómt búr en á leiðinni heim aftur var í búrinu lítill gulur kisi sem hefur fengið nafnið Dreki. Og nú geri ég eins og pabbi forðum daga. Ég ligg á bæn. Bið um kraftaverk. Bið þess að eiginmaðurinn geti búið með þessum yndislega krúttmola Hann virðist kunna bærilega við sig þó hann eigi stundum fótum sínum fjör að launa undan fyrrum yngsta fjölskyldumeðlimnum. Hún er yfir sig hrifin af honum en ég er ekki viss um að Dreki kunni alltaf að meta athyglina frá henni. Við höldum öll niðri í okkur andanum, hrædd um að ofnæmisdraugurinn láti sjá sig aftur. Sendið mér því alla ykkar kattastrauma. Annars gæti ég neyðst til þess að fá mér hamstur!


Guiding light leikkonan og tvífari Woody Allen

Unknown-3

 

Síðastliðið fimmtudagskvöld stigum við hjónin út fyrir þægindarammann sitt í hvoru lagi.

 Ég skráði mig á námskeið í Community College Santa Monica. Námskeiðið heitir “How to write funny” og er liður í plani mínu um að enduruppgötva sjálfa mig. Ég get eytt miklum tíma í að velta mér upp úr og stressa mig yfir svona hlutum svo ég lét eins og þetta væri ekki að fara að gerast, eins og ég hefði ekki skráð mig í þennan tíma. Ég kom því andlega óundirbúin í skólastofuna og til að bæta gráu ofan á svart rúmu korteri of seint (Umferðin í LA).

 Ég var ekki fyrr gengin inn um dyrnar fyrr en angistin helltist yfir mig. Í hvað var ég eiginlega búin að koma mér?  Kennarinn, Jonathan, er grínisti sem hefur verið með sketcha hjá Letterman og minnti mest á Woody Allen (sem er í engu uppáhaldi hjá undirritaðri). Vandræðagangur hans átti sér engin takmörk og í tímanum lærði ég meira um hann en ég kæri mig um að vita, t.d. að hann sé einhleypur en þráir að komast í ástarsamband. Fyrrverandi kærastan hans/núverandi besta vinkona hans er ást lífs hans sem gerir ástarsambönd flókin. Hann er með þráhyggjuröskun hvað varðar hreinlæti og dreymir um að taka eitt ár í að lifa með búddamunkum og læra allt um þeirra siði og venjur. Ástæða þess að ég veit allt þetta? Þetta var þriggja tíma kennslustund, ég ætti ekki að vita allt þetta um kennarann minn, er það? Jú, sko. Hans trú og kennsluaðferð gengur út frá þeirri hugmyndafræði að grundvöllur gríns sé sannleikur. Þess vegna verður maður að byrja á sannleikanum og vinna sig frá honum yfir í grínið.  

 En upplýsingagjöfin var ekki bara bundin við kennarann heldur var ætlast til þess að við, nemendurnir, opnuðum okkur inn að kviku og opinberuðum það sem hann kallaði “core need”, eitthvað sem við brennum fyrir, okkar dýpstu langanir og þarfir. Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekkert að hleypa fólki nær mér en ég endilega þarf. Og þarna er ég sest í skólastofu með ókunnugu fólki sem ætlast til þess að ég opni mig.  Þegar þetta lá fyrir byrjaði ég að svitna á efri vörinni. Glætan að ég ætlaði að fara að segja þeim eitthvað frá innstu hjartarótum, er það? Samnemendur mínir opinberuðu brostna leikaradrauma, ástarsambönd sem gengu ekki upp vegna ýmissa atriða, vonlausar tilraunir kynlífsfíkils til að hefja ástarsamband, rifrildi tónskálds við samstarfsmann sinn (notabene var umrætt tónskáld fast að sjötugu, enn að reyna að meika það, með alpahúfu í 30 stiga hita) og svo mætti lengi telja.  Á meðan þetta gekk á var ég að reyna að skrá eitthvað sem gæti skrifast undir mínar innstu langanir. Það sem rataði á blaðið: Verða fyrsti kvenkyns páfinn, vinna nóbelinn fyrir bókmenntir, verða söngkona frægari og betri en Adele og aðrir hlutir sem ég dæmdi “seif” að segja í þennan hóp.  Ekki fer ég að segja fólki sem ég þekki ekki rassgat eitthvað sem mig langar í alvörunni? Ég get varla sagt sjálfri mér það í augnablikinu...

 Ég komst lifandi út úr tímanum en það stóð tæpt um tíma. Ég tók meira að segja til máls. Ekkert stórkostlegt en ég lifði það af. Næsti tími verður spennandi, get ekki beðið eftir að fá að vita meira um það hvernig kynlífsfíkillinn ætlar að leysa drauma sína um ástarsamband eða hvernig alpahúfukonunni gengur með samstarfsmanninn ógurlega sem stendur í vegi fyrir að þau verði tónskáld á heimsmælikvarða.

 Eiginmaðurinn hafði öðrum hnöppum að hneppa fyrir hönd fjölskyldunnar þetta kvöld. Hann þurfti að mæta í boð ætlað fyrir nýja foreldra í skóla stelpunnar okkar. Boðið haldið í höll með kristalssljósakrónum og sú sem blés til fagnaðarins gerðist svo fræg að leika í Guiding light auk  þess sem hún hefur gert það gott í auglýsingaleik. Ég hefði gjarnan viljað vera fluga á vegg þegar eiginmaðurinn gekk inn í þetta umhverfi. Yfir 200 manns úr betri stigum samfélagsins. Sem betur fer fyrir hann þá hefur fólk alltaf áhuga á Íslandi og því gat hann gert uppruna sinn að samtalsefni mestan part kvöldsins. Hann er nefninlega ekki enn orðinn hæfur í samtölum um hlutabréfamöppuna sína sem er vinsælt í þessum hópi. Þess í stað gat hann talað um eldgos og Björk af miklum móð. Hann gat þó ekki setið lengur þegar að gestgjafarnir, Guiding light leikkonan og Ken, eiginmaður hennar, ákváðu að taka höndum saman og flytja lítið lag fyrir gestina, undir kristalssljósakrónunni komu þau sér fyrir, hann á flygilinn og hún við hlið hans, tilbúin að stíga á stokk með heimagert skemmtiatriði. Þar með lauk kvöldi eiginmannsins sem hrökklaðist öfugur út og heim aftur í umhverfi sem hann þekkir betur, heim tölvuleikjanna. 

Við hittumst hjónin upp úr 11 það kvöld við matarborðið yfir mjög síðbúnum kvöldverði, bæði uppgefin eftir ævintýri kvöldsins. Eitt er víst, að í borg eins og LA veistu aldrei hvar næsta ævintýri bíður þín. Þess vegna er það mottóið mitt að opna á það, þiggja boð sem berast og sjá hvað gerist, það verður eitthvað óvenjulegt og stórkostlegt, það er það eina sem ég veit.

 


Gengin upp að hnjám!

Unknown-2 

Fyrir ekki svo löngu las ég þrælskemmtilega grein eftir höfundinn David Sedaris. Greinin fjallaði um það þegar hann fékk sér Fitbit skrefamæli sem síðan tók yfir líf hans. Áhugi minn var vakinn og mér áskotnaðist svona gripur fyrir rúmri viku síðan. Markmiðið er að ganga að minnsta kosti tíu þúsund skref á dag sem mér reynist auðveldar en ég átti von á. Það sem ég átti ekki von á er keppnisskapið sem kom samhliða. Fyrstu dagana var notalegt að fá hina ýmsu viðurkenningarskildi. Fyrstu 5.000 skrefin sem ég gekk, fyrsta sinn sem ég náði tíu þúsund skrefum, fimmtán þúsund skrefum og þegar ég braut 50 þúsund skrefa múrinn (ekki á einum degi, það tók mig rúma þrjá daga að ná því saman). En svo gerðist það að ég eignaðist vini og þar er hægt að fylgjast með árangri vina þinna.

Ég á ljúfa nágrannakonu. Hún er með tvo stráka á sama aldri og stelpurnar, bresk, og við höfum náð ágætlega saman. Eldri krakkarnir í sama skóla og okkur öllum orðið vel til vina. Hún er algjör göngugarpur, henni er meinilla við að keyra og hatar að leggja bílnum sínum sem þýðir að hún gengur allt sem hún fer og það er þó nokkuð. Fljótlega eftir að ég fékk skrefamælinn barst mér vinabeiðni í Fitbit appinu frá henni. Slæmar fréttir fyrir mig því það lítur enginn vel út í samanburði við hana. Ég var því svolítið lengi að svara henni en ákvað að ég gæti ekki verið svona mikill heigull heldur yrði ég að takast á við sjálfa mig og minnimáttarkenndina enn einu sinni. 

Þetta hefur reynst mér hin besta hvatning. Í gær var einhver met dagur hjá henni. Um miðjan dag var hún 5 þúsund skrefum á undan mér og í fyrsta sæti á vinalistanum. Óásættanlegt. Ég dreif því vinkonu (auðvitað aðra en hana) með mér út og þrammaði hér vítt og breytt um bæinn. Rétt mjakaðist upp fyrir hana og þurfti því að rífa börnin út eftir kvöldmat aftur því ég vissi að hún átti eftir að fara út með hundinn fyrir nóttina.  Mér tókst að halda fyrsta sætinu mínu en með herkjum. Upp úr níu í gærkvöldi var ég komin upp í rúm. Gengin upp að hnjám, algjörlega úrvinda en um varir mínar lék bros sigurvegarans. 

 Gleðin var skammvinn get ég sagt ykkur. 

Ég var ekki fyrr komin á fætur en beyglan var komin tvö þúsund skref á undan mér. Hún hlýtur að ganga í svefni. Ég þarf því augljóslega að reima á mig íþróttaskónna því það er ljóst að ekki næ ég henni með því að mífrast hér um á sandölum, nú þarf að láta verkin eða sporin tala.

David Sedaris hefur því tekist að fylla mig af sömu þráhyggju og hann sjálfur lýsir í greininni og ég gerði góðlátlegt grín að. Mögulega ætti ég að reyna að gerast vinur hans í gegnum skrambans tækið og sjá hvort ég geti skorað á uppáhalds höfundinn líka. Nei, hann er algjörlega óður og myndi vinna mig í hvert sinn.

Þeir sem vilja lesa greinina sem kom þessu öllu af stað geta gert það hér. 

Markmið dagsins í dag. Mig dreymir um að ná yfir 20 þúsund skrefum... sjáum hvað setur! 


Brunarústir einar

 sunburn.png

Þegar ég bjó á Íslandi átti ég margra ára birgðir af  hálftómum sólarvarnarbrúsum. Brúsarnir voru keyptir ýmist í útlöndum eða þegar sólin lét sjá sig á Fróni en veðrið entist aldrei nógu lengi til að brúsarnir kláruðust og voru birgðirnar í mis góðu ástandi. Sólarvörn er þó nauðsynjavara þegar að maður er fölari en Dracula og á eiginmann með rautt gen í sér. Ég hef nokkrum sinnum á ævinni brennt mig svo illa að ég mun aldrei geta þurrkað sársaukann úr minninu. 

Fyrsta brunarústarminningin er á Ítalíu, 8 ára. Pabbi dröslaði mér um borð í einhvern bát og út á eitthvað vatn og æfði sig svo í að að velta bátnum næstum því til að hræða úr mér líftóruna og steingleymdi í hamaganginum að smyrja mig með sólarvörn. Næstu daga á eftir var ég föst inni í íbúðinni sem við leigðum og mamma smurði mig með after sun, jógúrt og öðru sem hún fann í ísskápnum. Minnir að það hafi meira segja verið  hringt á lækni.

Næsta brunaminning er þegar ég er á fermingaraldrinum. Það voru allir að tana sig í drasl fyrir hvítu fermingarkyrtlana og kjólana undir. Vond staða fyrir fölu týpuna. Ég fjárfesti í ljósakorti í Vesturbæjarlauginni og sótti þangað grimmt, kláraði eina 8 tíma áður en ég gafst upp enda var rassinn á mér orðinn að slíkri brunarúst að ég sat ekki þægilega í fleiri fleiri daga.

mais.jpg

Eftir það var ég frekar passasöm með þetta. Nema í Evrópureisu með ektamanninum upp úr tvítugu einhvern tímann. Við höfðum staðið af okkur hitabylgju í Ítalíu án þess að brenna og litum svo yfir til Sviss þar sem var ekki nema um 20 gráðurnar og gola. Töldum húðina vera orðna vana veðrinu og ákváðum að vera ekkert að splæsa í vörn einn daginn sem við eyddum við eitthvað vatn þarna. Skemmst frá því að segja að eftir 8 tíma dag við vatnið vorum við orðin rauð eins og humrar. Ég gat hvorki staðið né setið og að liggja var hin mesta pína. Ég baðaði mig  upp úr aloe vera og hef haldið mig sólarvarnarmegin í lífinu síðan.

Hér í borg Englanna er staðan þannig að búið er að brenna upp fjalli af sólarvarnarbrúsum. Ég komst hjá því að nota mikið af henni fram í mars mánuð en þá byrjaði gamanið og þar erum við enn stödd. Ég hef eytt hundruðum dollara síðan þá í að kaupa nýja og nýja brúsa enda erfðu afkvæmin fölan lit móðurinnar og rauða gen föðursins. Þær þarf því að smyrja með tilheyrandi öskri og grenji sem kemur að mestu frá yngra dýrinu. Hún harðneitar að venjast strandlífinu betur en svo að láta eins og ég sé að handleika hana með pyntingartólum þegar hún er smurð með sólarvörn. Þessi ritúal er að minnsta kosti tvisvar á dag nótabene.

brun.jpg

Nú er hitabylgja mætt á svæðið. Hitinn hækkaði um einar 5 gráður í gær og í dag enn meira. Í stað þess að vera með heimferðarblús í gær eftir að hafa keyrt foreldrasettið á flugvöllinn sneri ég vörn í sókn og smalaði vinum á ströndina, eina leiðin til að tækla hitabylgju. Með í för dreggjar af sólarvörn sem dugðu ekki betur en svo að eiginmaðurinn er rauðglansandi brunarúst og ennið á mér er sjálflýsandi. Nú eru góð ráð dýr. Ástandið á okkur býður ekki upp á meiri viðveru á ströndinni. Og hitinn í 34 gráður í dag, engin loftkæling í íbúðinni og tvær dætur sem verða geðstirðar með meiru í hita.

Leit aðeins í blöðin og fann þar lausn á vandamálinu. Fólki er ráðlagt að heimsækja opinber rými í dag sem eru loftkæld og búið að lista upp bókasöfnum og öðrum almannastöðum þar sem fólk getur mætt til að kæla sig. Ætli það verði ekki eitthvað svoleiðis á dagskrá. Eiginmaðurinn verður í langermabol til að klæða af sér brunann og ég með derhúfu til að skýla greyið enninu mínu sem þolir ekki svo mikið sem eina sólarglennu til viðbótar. Við munum því verja deginum á vel völdu safni þar sem loftkælingunni er blastað eins og enginn sé morgundagurinn. 

Ó hvað ég gæfi ekki fyrir rok og sudda í Reykjavík núna. Grasið er og verður alltaf grænna hinu megin.


Spegill, spegill herm þú mér!

beauty.jpg

Ég bý við götu sem heitir Montana og það er skemmst frá því að segja að hún er eins og mekka fegurðarinnar (eða útlitsdýrkunarinnar eins og ég kýs að kalla það). Á þessari götu ætti versta herfa að geta orðið að kvikmyndastjörnu ef marka má auglýsingaskilti þeirra og lausn að finnast á öllu sem gæti hugsanlega hrjáð mann útlitslega séð, hvort sem það er slæmt hár, slæm húð, ljótir hælar eða léleg melting, lausnin leynist á Montana. Hér er hægt að fá bótox í flest allt sem manni dettur í hug að bótoxa og fara í leyser andlitsbað, drekka kampavín meðan hárið er blásið og vaxa sig hárlausan eftir kúnstarinnar reglum. Sumir kjósa brasilískt vax en aðrir vaða í Evrópskt vax og ein stofan sérhæfir sig einvörðungu í að lita augnhár þeirra sem eru með draugsleg augnhár. Það er hægt að eyða formúgu í krem af ýmsum sortum sem lofa öllu fögru og skrapa á sér hæla og klippa naglabönd meðan þrjár konur reyna að nudda úr manni stressið sem allar þessar fegrunaraðgerðir kunna að valda manni. Það er hægt að hreinsa í sér innyflin með djúsum og sjeikum og teygja sig og toga í ótal jóga stúdíóum. Hárlaus, fílapenslalaus og peningalaus stendur maður uppi eftir daginn fullur af komplexum og efasemdum um útlitsleg vandamál sem maður vissi ekki að hrjáðu mann fyrr en að að hafa gengið eins og pílagrímur upp og niður götuna góðu.

kiehls_logo_400x400.jpg

Ég hef að mestu látið þetta sem vind um eyru þjóta, þennan fegurðaráróður en um daginn brustu varnirnar. Ég rak nefið inn í virta húðvöruverslun hér handan við hornið, Kiehls að nafni. Húðin mín hefur látið illa síðustu mánuði, kann illa við stöðugan svitataum undan hitanum og óhreinindin sem fylgja stórborginni. Ég hef lítið nennt að sinna því en var barnslaus og ákvað að sjá hvað ég gæti gert í þessu. Ég var eina fórnarlambið inni í versluninni og því gat konan í sjúkrasloppnum einbeitt sér að mér. Hún tróð mér í sæti og hóf svo að grandskoða húðina mína með bláum John Lennon gleraugum sem hún horfði annað hvort yfir eða gegnum á meðan hún prófaði olíumagn húðarinnar með strimlum af ýmsu tagi. Svo hófst yfirheyrslan. Hvað gerirðu við húðina á þér? Hvernig krem notarðu? En augnkrem? Greyið konan hafði aldrei lent í öðru eins tilfelli. Ég reyndi að "plead the fifth" eða neita að svara en hún gekk svo á mig að á endanum þurfti ég að viðurkenna allar mínar húðlegu syndir. Staðreyndin sú að ég hreinsa eiginlega aldrei á mér húðina, ef frá er talið vatnið sem rennur yfir hana í sturtunni og svo einstaka sinnum nota nota ég einhverja húðsápu í sturtunni. Ef ég mála mig vakna ég yfirleitt með maskara út á kinn daginn eftir því ég er orðinn of þreytt á kvöldin til að stumra yfir smettinu á mér. Konan góða missti andlitið og þurfti dágóða stund til að ná áttum. Ég þurfti að endurtaka þetta nokkrum sinnum og viðurkenna til viðbótar að enginn kornamaski væri heldur í spilinu. Þegar hún hafði náð andanum aftur fékk ég fyrirlestur um óhreinindi, fílapensla sem voru orðnir inngrónir og ýmislegt annað. Hún hótaði daglegum símhringingum ef ég stæði mig ekki í stykkinu með þrifin og sendi mig út með hreinsiefni og rakakrem og kornamaska. Auk þess fékk ég ótal prufur af töframeðulum og helst hefði ég átt að kaupa einhverjar túpur til viðbótar. Nú er liðin rétt um vika síðan og mínútunum við spegilinn með hreinsikittið fjölgar hægt og rólega. Ég hélt fyrstu dagana að ég hefði látið gabba mig enda lét húðin öllum illum látum undan meðferðinni, óvön svona ónæði. En núna er eins og það sé að komast jafnvægi á hana. Síðustu bólurnar að hverfa og ég er ekki frá því að ég sé allavegana einu ári yngri en ég var. Það er því ljóst að litlu ef einhverju var til logið um árangurinn og ég neyðist því til að éta hattinn minn. 

Skrímslið hefur verið vakið innra með mér. Nú ligg ég á netinu í upplýsingaleit um nýjasta æðið. Hver þarf megrunarkúr þegar hægt er að láta frysta fituna burt. Það virkaði á vörtuna þegar ég var krakki svo mögulega er hægt að frysta bumbuna burt?

Framhald síðar. 


Kjötsúpuveisla í Los Angeles

Ég er í dekri þessa dagana. Mamma og pabbi mættu á svæðið í síðustu viku. Ekkert eins og að hafa þau hérna. Þau mættu með ferðatöskur fullar af góssi sem gladdi heimþráða hjartað mitt óendanlega mikið. Undanfarna daga hefur því verið íslenskt þema á heimilinu, hálfundarlegt í 27 gráðu hita en ég læt það að sjálfsögðu ekki stoppa mig. Upp úr ferðatöskunum góðu komu m.a. eftirfarandi hlutir: 

Kleinur. "Gæðakleinur" Myllunnar eru ekki jafn góðar og kleinurnar sem amma steikti þegar ég var krakki en þær slógu nú samt í gegn hérna megin.

product_233.jpg

Lifrarkæfa, kindakæfa og auðvitað gamla góða lifrarpylsan. Nestisbox stelpnanna litað af þessu undanfarna daga, kæfusamlokur og lifrarpylsusneiðar vakið lukku í skólum beggja.

Súpukjöt. Mamma gerir bestu kjötsúpu í heimi. Hún er rauð, ekki gul eins og þessi hefðbundna íslenska. Mamma ætlar að henda í hana í kvöld og ég mun borða hana með viftuna á fullum krafti svo ég kafni ekki úr hita.

Flatkökur og hangikjöt. Fullkomin blanda, ekki satt!

Íslenskt sælgæti. Engin 30 daga hreinsun í gangi hérna lengur. Súkkulaðirúsínur og pipp. Draumur og Lindubuff, er til betra nammi?

Reykti laxinn. Ég veit, ég veit. Til reyktur lax hérna og allt það. En hann er bara ekki jafn góður. Uppáhaldið mitt er frá Opal Seafood, namm.

Dekurrósin sem ég er, þá voru ekki bara matvæli í töskunum. Onei. Ég er sko einkadóttir foreldra minna og stundum geng ég undir nafninu Prinsessan á bauninni. Mamma mín fór í uppáhalds skóbúðina og upp úr töskunni kom skópar frá besta skóhönnuði í heimi, Chie Mihara. Hamingjustunur. Og Iitala kertastjaki. Dæturnar fengu glaðning líka, hlauppúka og íslenskar teiknimyndir. Og bækur.

Svo sendi yndislega vinkonan umhyggjupakka (Care package) sem fullkomnaði þetta algjörlega. Malt og appelsín, íslenskur brauðostur og eigum við að ræða þristakúlurnar? Ég veit að þær eru pissugular á litinn en það skiptir bara engu máli.

index.jpg

Heimþráin hvarf eins og dögg fyrir sólu og hamingjubrosið er fast á okkur fjölskyldumeðlimum. En ég gæti mögulega þurft að taka annað 30 daga plan að þessu öllu loknu. En ég harðneita samt að hætta að drekka kaffi. Kemur ekki til greina. Og ein og ein þristakúla getur varla verið svo hættuleg?

 

 


Foreldar rændir

Ég hef verið étin af amerísku skólakerfi. Litla stóra stelpan mín byrjaði í skóla 19. ágúst. Ég sé strax að það verður meiri vinna fyrir mig en hana, þetta hefur algjörlega tekið yfir líf mitt.

schoolnew.jpg

Skólinn okkar þykir fínasti skóli Santa Monica, það var fyrir einskæra heppni að gatan okkar tilheyrir póstnúmerinu sem fær aðgang að þessum skóla, einni götu neðar og við værum í öðrum skóla. Ég bý sumsé í útjaðrinum. Þarna fæ ég að kynnast skólakerfinu eins og maður sér það í bíómyndunum með sturluðum PTA (Parent Teacher Association) mæðrum og preppí vel tönuðum pöbbum. Börnin eru vel greidd og fallega klædd og mörg búin að vera í rándýrum leikskólum þar sem þau hafa lært menntaskólastærðfræði og bókmenntir síðan þau voru í bleyjum. Og svo eru það íslensku tröllin eins og ég er viss um að þau kalli okkur.

 PTA samtökin sjá um að gera skólann að besta skóla Los Angeles og aðferð þeirra til þess er að seilast eins djúpt ofan í vasa foreldranna eins og hægt er. Ekki misskilja mig, þetta er opinber skóli og á að vera ókeypis. En eins og vel straujaða formannsmóðirin sagði okkur oft á fyrsta fundi: "Það er ekkert sem heitir ÓKEYPIS góður public skóli". Þau nota orð eins og "silent auctions", "country clubs", "minimum ask" og svo framvegis. Þessu fylgir að við höfum orðið að skrifa bankanum og óska eftir að taka skref til fortíðar með því að fá sent ávísunarhefti. Ófáar ávísanir sem þarf að skrifa undir á næstu árum. Ef maður leyfir sér að grenja eitthvað undan peningaplokkinu minna þeir á að við séum ekki lengur að greiða himinháu leikskólagjöldin svo þetta geti ekki verið svona slæmt.

 wkfkkyz6utstxco.png

Ef það væru bara peningar sem þeir vildu frá manni þá gæti maður kannski látið gott heita. En nei. Það er ætlast til þess að maður sitji í einhverju fjalli af nefndum, starfi í skólastofu barnsins vikulega og mæti á viðburði sem virðast vera að lágmarki vikulega. Ég er nú þegar búin að skrifa frá mér þriðjudagana og komin í eina nefnd. Það var þó ýjað góðlátlega að því að ef við gætum skrifað nógu háa tölu á ávísunina þá kæmist maður undan öllu þessu, en talan þarf þá að vera skrambi há.

Við sóttum fyrsta kvöldviðburðinn okkar af mörgum í síðustu viku. "Back to School" kvöld. Ég var guðslifandi fegin þegar þeir tóku ekki þjóðsönginn í upphafi en hefði ekki átt að hrósa happi of snemma. Í staðinn voru kennararnir kynntir inn undir tónlist og fjölskrúðugum orðum, svona eins og þegar hnefaleikakappar eru kynntir inn til leiks. Þegar kvöldinu var lokið leið mér eins og ég þyrfti áfallahjálp, á leið í gjaldþrotameðferð eftir peningaplokkið og andlega uppgefin eftir að hafa heyrt um öryggisreglur skólans, t.d. þegar óður byssumaður kemur á skólalóðina nú og svo jarðskjálftaundirbúninginn, neyðarsms skilaboðalistann sem er nauðsynlegt að vera á og svo mætti lengi telja.

Dóttirin heyrir ekkert af þessu. Hún elskar kennarann sinn heitt og æðir af stað í skólann á morgni hverjum spennt og hamingjusöm. Eins og á að vera. Móðirin hinsvegar þyrfti að hitta lækni og fá uppáskrifað róandi.

Í næstu viku: Sjálfboðaliði í skólanum á þriðjudegi og svo mixer fyrir foreldrana á heimili kennarans. Vikan á eftir? Mixer fyrir alla nýja foreldra í skólanum. Hvar er hann haldinn? Á einhverju mansioni eins foreldrisins. Ég er þegar farin að svitna yfir sjálfri mér og vandræðaganginum í fjölmenni.


Íslensk kona týnd í Los Angeles

ECARD

“Komdu með krakkann í vinnuna” dagur í dag. Það þýðir að eiginmaðurinn er með ormana 2 á skrifstofunni fyrir hádegi og mamman situr með dásamlegan kaffibolla á útikaffihúsi í borg englanna.

 Ég er að byrja á nýju verkefni. Verkefnið er kallað “Sif finnur sjálfa sig”. Þetta er eiginlega björgunarleiðangur. 9 mánuðir sem heimavinnandi húsmóðir með 2 börn hefur valdið því að ég er ekki lengur viss um það hver ég er. Metnaðarfulla týpan sem vaknaði til vinnu á hverjum morgni er horfin. Meira að segja metnaðurinn sem ég hafði til heimilisstarfanna og barnauppeldisins í upphafi 9 mánaðanna er horfinn. Ég rétt dröslast í gegnum daginn, held í horfinu og reyni að halda geðheilsunni. Suma daga gengur það en aðrir dagar eru langir og strangir.  Ég á erfitt með að muna hvað það er sem drífur mig áfram, hvað það er sem ég brenn fyrir, hvað  það er sem nærir sálina mína. Þannig að björgunarleiðangurinn snýst um þetta. Finna aftur kraftmiklu Sif sem vaknaði orkumikil á hverjum degi og hlakkaði til þeirra verkefna sem dagurinn hafði upp á að bjóða. 

 Í gær sendi ég út tölvupósta og ákall um hjálp í leit að námi sem heillar. Vinna er ekki í boði í bili vegna pappírsmála í landi frelsisins.  Möguleikarnir í 8 milljón manna borg eru hreinlega of margir og reynist erfitt að finna nálina í heystakknum. Þess utan kostar nám hér hand- og fótlegg svo það er eins gott að velja vel. Það er ekki bara einn háskóli, það eru yfir 100. Námsleiðirnar skipta þúsundum. En ef ég klára eins árs diplómu og færi mig þá yfir á námsmanna vísa þá má ég vinna í eitt ár á eftir og í kjölfarið ætti græna kortið að vera komið og ég frjáls undan vinnubanninu í kjölfarið.  Diplóman sem heillar mest snertir "iðnaðinn" eins og hann er kallaður hér í borg. Iðnaðinn sem býr til kvikmyndir og sjónvarpsefni. Sjáiði þetta ekki fyrir ykkur? Sif Johannsdottir movie producer/tv producer. Þetta hefur góðan hljóm, það verður að viðurkennast. Ég hélt að það yrði leikur einn að græja þetta en hef komist að öðru. Í fyrsta lagi er samkeppnin um störfin brjálæðisleg. Í öðru lagi þá eru verkefnin að flytjast meira og meira frá LA, iðnaðurinn er á undanhaldi í upprunalandi sínu. Aðrar borgir og önnur lönd eru að draga iðnaðinn til sín með loforðum um skattaafslátta og hlutur LA í framleiðslunni minnkar stórkostlega ár frá ári og þar með verkefnin sem í boði eru. Í þriðja lagi eru launin og vinnutíminn í byrjun ekki sérlega fjölskylduvæn. Vinnudagarnir ef maður fær vinnu eru oftast um 16 klukkustundir.

 Kraftmikla Sif hefði ekki látið draga úr sér. Þessvegna þarf ég bráðnauðsynlega að hitta á hana. Ég bind vonir við að þegar dæturnar eru komnar í skólana sína með haustinu þá birtist ofurkvendið aftur og sparki í rassinn á letihlussunni. Til vonar og vara er ég byrjuð á vítamínkúr og kaffidrykkjan að sjálfsögðu komin í sitt fyrra horf eftir 30 daga kúrinn.  Þetta er allt í áttina...


Étin af geitungum

Margir bíða eflaust spenntir eftir fréttum af útilegu fjölskyldunnar. Ég hef bara ekki treyst mér til að viðurkenna hvernig þetta endaði allt saman. En verð að játa útilegusyndirnar.

pakka.jpg

Við lögðum af stað í brakandi sól á laugardagsmorgni. Horfðum á hitamælinn hækka eftir því sem við nálguðumst lendingarstaðinn. Keyrðum í gegnum ræktarland Kaliforníu við hlið trukka sem fluttu heilu tonnin af tómötum, hvert veit ég ekki, kannski í verksmiðju Huntz, hver veit. Komum á tjaldstæðið upp úr 6 í 38° hita. Eiginmaðurinn svitnaði eins og svín við að koma upp tjaldbúðunum meðan ég réðst á næstu konu sem ég fann við klósettin til að yfirheyra hana um poison oak og biðja hana um að sýna mér svo ég gæti nú þekkt þetta. Reyndist óþarft að fá nokkra sýnikennslu, helvítis plantan var allt um kring. Ef stigið var út fyrir litlu göngustígana var maður strax kominn með þetta upp að hnjám. Við vorum umlukin! Þetta var eins og að vera í fangelsi ég sver það. Skellti mér á tojarann meðan eiginmaðurinn hélt áfram í svitabaði að sýsla við að koma upp báli til að elda á og allt hitt sem maður þarf að gera þegar maður er úti í náttúrunni. Á klósettinu hitti ég fyrir svarna óvini mína. 10 stykki kóngulær. Það urðu engir fagnaðarfundir og mér varð strax ljóst að ég myndi ekki létta á mér öðru vísi en með hland fyrir hjartanu. Efasemdirnar byrjuðu strax þá. Ég stökk út af klósettinu eftir að hafa stoppað í miðri bunu (hjálpaði mér ekki seinna um kvöldið) og reyndi að halda kúlinu. Smurði á mig pöddufælu og predikaði yfir dætrunum um að varast gróðurinn. Gúffaði í mig hammaranum og grillaði sykurpúða en svo skall myrkrið á og ég gat ekki lengur varast það sem ég sá heldur þurfti ég að ímynda mér allt það sem mögulega var í kringum mig. Ekki svo góð tilfinning svo við smöluðum ormunum inn í tjald. Ég gerði tilraun til að létta á mér fyrir nóttina en klippti aftur á í miðri bunu þegar ég horfði á eina spinnegal kónguló í loftinu. Það tók tímann sinn að fá ormana til að sofna og svo þurfti ég aftur að pissa. Festi hárið í rennilásnum á tjaldhurðinni á leið út og þurfti að standa berskjölduð í myrkrinu við að losa það lengur en var þægilegt. Tókst á við kóngulærnar aftur og hitti svörtu ekkjuna fyrir utan klósettið. Hún var hress, ekki ég. Heyrði ógnandi skruðninga í gróðrinum allt um kring en sá minnst vegna svartamyrkursins sem fylgir þessari náttúru. Skellti í mig tveimur svefntöflum, þessum bláu sem maður fær í öllum apótekum hérna í Ameríkunni og beið og beið og beið. Sofnaði loks  undir pöddusöng og svaf illa þessar 3 klukkustundir sem ég gleymdi mér. Upp úr 7 næsta morgun byrjaði fjölskyldan við hliðina á okkur morgunverkin sín. Með hrópum og köllum. þau voru 15 saman, með gettóblaster og lélega tónlist og virtust ónæm fyrir poison oak, allavegana hlupu þau um í eiturrunnunum eins og enginn væri morgundagurinn. Ég skrölti á fætur og meðan ég bruggaði Chemex kaffið mitt leið mér eins og þetta væri næstum rómantískt. Þar til ég þurfti að pissa og hitti fyrir vinkonurnar á baðinu aftur. Það var þá sem ég játaði fyrir eiginmanninum að þetta yrði svo sannarlega ekki 5 daga útilega, ég var ekki bjartsýn á að þetta myndi ná einni nótt í viðbót á þeim tímapunkti. 

tjaldi.jpg

poison_oak.jpg

napa_bjuti.jpg

Við hentum okkur út í daginn og nutum þess sem Napa hefur upp á að bjóða. Ég smakkaði eins og 5 vín hjá Beringer vinum mínum, leit inn í uppáhalds verslun mína Dean and Deluca, borðaði ljúffengan mat hér og þar um héraðið og óx kraftur og trú á getu minni til að þola útileguna. Við stoppuðum í Wholefoods, moppuðum upp kolum og steikum og ákváðum að hafa það huggulegt. Svo tók það góðar 2 klukkustundir að grilla helvítis steikina vegna þess að járngrindin stóð of hátt miðað við kolahauginn undir o.s.frv. þegar kvikyndið var loksins tilbúið á diskinn minn höfðu fréttir af dýrðar steik borist milli flugna þarna og var því stór geitungahópur mættur í kvöldmat. Ég barðist hetjulega við þá um steikina og bökuðu kartöfluna en gafst upp enda um ofurefli að ræða. Henti öllu í ruslið. Hringdi á hótel. Sagði eiginmanninum að rífa niður búðirnar. Og þannig fór um sjóferð þá, klukkan átta að kvöldi eftir fyrstu nóttina rifum við allt niður og brenndum eins og pabbi forðum á næsta hótel. Þó ekki með blautan farangur en svo drulluskítug af moldarrykinu sem var þarna að baðvatnið varð svart þegar dæturnar fóru ofan í. Oj bara. 

Allt er gott sem endar vel og gekk ferðin nokkuð áfallalaust fyrir sig eftir þessa brösóttu byrjun. Vínekrur voru heimsóttar og við komum heim með 12 vínflöskur eftir herlegheitin og ég búin að skrá okkur í vínklúbb sem tryggir sendingar 4 sinnum á ári frá héraðinu. Við borðuðum á yndislegum veitingastað, úrvalið endalaust af gæðastöðum þar, en í Napa dalnum einum hvíla 11 Michelin stjörnur. Ég hitti samt enga þeirra, dæturnar sjarma ekkert fyrir Michelin, vilja bara borða og rjúka af stað, ekki sitja og njóta. En ég fékk frönsku lauksúpuna sem mig hafði dreymt um síðustu vikur. Sat í 38 gráðunum mínum og þrjóskaðist við að gúffa henni í mig í svitabaði!

napa_fegur.jpg

vini.jpg

 

Í gær skelltum við okkur svo í Costco með moldugt tjald og svefnpoka og skiluðum því. Costco annálaðir fyrir að vera með bestu skilareglur í öllum Bandaríkjunum, ef ekki bara heiminum. Ég rétti þeim skítuga tjaldið og svefnpokana sem ég var búin að sofa í og fékk til baka haug af seðlum, "no questions asked". Labbaði svo inn í búðina og út úr henni aftur með dásemdir fyrir aurinn minn, svo sem Rib eye steik, ferskan maís, tvö kíló af jarðarberjum (kostuðu 3 dollara), bjór og san pellegrino gos, tómatsósubirgðir sem endast hálft ár (það er drjúgur slatti fyrir þetta tómatsósuóða heimilið), osta og spænska hráskinku. Og afhverju vilja Íslendingar ekki fá þessa yndis verslun heim? Óskiljanlegt!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband